Hundrað þúsund meira í bensínskatt

mbl.is/Frikki

Venjuleg fjölskylda greiðir ríkinu hundrað þúsund krónum meira á ári í bensínskatta nú en fyrir fjórum árum. Sá hluti kaupverðsins sem olíufélögin fá til sín hefur hækkað um 87% á sama tíma. Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld.

Samkvæmt tölum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda hefur innkaupsverð á bensíni hækkað um 117% síðustu fjögur ár og álagning olíufélaga um 36%. Þessi hluti verðsins, sem rennur til olíufélaganna, hefur hækkað um 87% á þessum tíma.

Skattar ríkisins hafa hins vegar hækkað mismikið. Vörugjald hefur hækkað hlutfallslega mest, um 164%, eða rúmar fimmtán krónur.

Bensíngjald hefur hækkað um tæp tuttugu prósent, eða um 6,5 krónur. Nýjum kolefnisskatti hefur verið bætt við og flutningsjöfnunargjald hefur hækkað lítillega. Við þetta bætist svo virðisaukaskattur sem hefur hækkað um 85%. Með þessu öllu hefur bensínlítrinn hækkað úr 137 krónum í 248 krónur. Þetta er 80% hækkun, en á sama tíma hefur verðlag almennt hækkað um 35%, segir í frétt RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert