Málið nú orðið gott og gilt

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

„Þetta er bara eftir öðru hjá þessari ríkisstjórn. Hún er að lenda í algeru tímahraki með þetta stjórnarskrármál allt og þá á greinilega að reyna að redda sér með því að draga upp þetta frumvarp sem ég flutti á síðasta ári,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Eins og fjallað var um á mbl.is í gær var því hafnað á Alþingi að veita afbrigði vegna þingsályktunartillögu um að boðað verði til ráðgefandi þjóðaratkvæðis í sumar um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá samhliða forsetakosningum sem fyrirhugaðar eru 30. júní næstkomandi.

Fyrir vikið verður ekki hægt að taka málið á dagskrá fyrr en eftir helgi og þá líklega á þriðjudag en til þess að hægt verði að halda þjóðaratkvæðið samhliða forsetakosningunum þarf að klára málið í þinginu í síðasta lagi næstkomandi föstudag eftir viku.

Ástæðan er sú að samkvæmt lögum um þjóðaratkvæði verða að líða þrír mánuðir frá því að ákveðið er að setja mál í þjóðaratkvæði og þar til atkvæðagreiðslan fer fram. Frumvarp Vigdísar gengur út á það að víkja megi frá því ef almennar kosningar eru boðaðar í millitíðinni þannig að halda megi þjóðaratkvæðið samhliða þeim, en frumvarpið var tekið til umræðu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.

„Ég auðvitað fagna því bara að ríkisstjórnin hafi í hyggju að koma þessu frumvarpi mínu í gegn. Það er bara gleðilegt. Það má hins vegar rifja það upp að þegar ég lagði frumvarpið fram á sínum tíma var mér úthúðað fyrir það af stjórnarliðum og því fundið allt til foráttu af þeim,“ segir Vigdís.

Núna sé málið hins vegar orðið gott og gilt að mati ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún sjá í því „möguleika á að skera sig niður úr þeirri snöru sem hún er búin að koma sér í vegna þessa dæmalausa máls“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert