Þörf á skjálftamælum við Snæfellsjökul

Snæfellsnes.
Snæfellsnes. Mynd/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálftavirkni mældist undir Snæfellsjökli á um tveggja mánaða tímabili í fyrrasumar, samkvæmt gögnum úr jarðskjálftamælum sem Matteo Lupi and Florian Fuchs frá Bonn-háskóla í Þýskalandi settu upp. Veðurstofa Íslands mælir ekki á svæðinu, en verkefnisstjóri jarðváreftirlits segir það æskilegt.

Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, bendir á þetta í færslu á vefsvæði sínu. „Nú eru komin fram gögn sem sýna að það er skjálftavirkni í gangi undir Jöklinum og við vitum bókstaflega ekkert um hvað er að gerast hér í jarðskorpunni, hvorki undir Ljósufjöllum né undir Snæfellsjökli,“ segir Haraldur og að Veðurstofu Íslands beri skylda til að setja upp varanlegt net jarðskjálftamæla á Snæfellsnesi, sem nær bæði yfir Ljósufjöll og Snæfellsjökul.

Spurð að því hvers vegna Veðurstofa Íslands sé ekki með jarðskjálftamæla á svæðinu segir Steinunn Jakobsdóttir, verkefnisstjóri jarðváreftirlits Veðurstofunnar, að um árabil hafi það verið í skoðun en ekkert gerst. Hún staðfestir að það strandi á fjármagni.

Steinunn segir rétt sem fram komi á vefsvæði Haraldar, að skjálftavirkni hafi mælst undir Snæfellsjökli. Skjálftarnir hafi hins vegar verið mjög litlir. Hún segir að Lupi og Fuchs hafi hug á að mæla aftur á svæðinu í sumar og Veðurstofan muni fylgjast grannt með þeim mælingum. Þá telur Steinunn að æskilegt væri að jarðskjálftamælanet Veðurstofunnar næði einnig yfir þetta svæði, til að safna upplýsingum um virknina og fá aukinn skilning á henni.

Spurð hvort menn telji að gosið geti á svæðinu segir Steinunn að það sé möguleiki, en að hafa beri í huga, að allt eins geti verið að þarna hafi ávallt verið skjálftavirkni, þó langt sé síðan að það gaus seinast.

Haraldur bendir hins vegar á það á síðu sinni að Ljósufjöll hafi verið virk eldstöð eftir landnám, og Rauðhálsahraun um 900, en Snæfellsjökullinn sennilega ekki gosið í um 1750 ár.

mbl.is