Tillögurnar í „pottþéttan lagalegan búning“

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Frikki

„Við viljum leggja fram á næsta þingi frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Við erum með tillögu stjórnlagaráðsins, það hefur komið fram gagnrýni um að það séu einhver lagatæknileg atriði sem þurfi að laga, það þurfi líka að laga greinargerðina, og við ætlum nú að fá fólk sem hefur sérþekkingu í lögfræði til þess að yfirfara þessa tillögu,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í samtali við mbl.is.

Hún leggur þó áherslu á að ekki sé um að ræða nefnd heldur einungis fólk sem stjórnlaga- og eftirlitsnefnd ætli að fá til þess að fara yfir málið fyrir hana. Hún bendir á að Lagastofnun Háskóla Íslands hafi talið að það þyrfti ár í þá vinnu. „Við höfum alltaf lent í því að þegar við spyrjum sérfræðinga þá veifar hver sínum tillögum.“ Hún segir að tillögur stjórnlagaráðs liggi fyrir „en við þurfum náttúrlega að hafa þær í pottþéttum lagalegum búningi. Það er það sem við ætlum að biðja þetta fólk að hjálpa okkur við“.

Aðspurð vildi Valgerður hins vegar ekki gefa það upp á þessari stundu um hvaða fólk væri að ræða. „Ég hafði nú skilið það þannig að það þyrfti ekki að ganga frá þessu formlega í nefndinni. Nú hafa komið upp einhverjar efasemdir um það og ég vil nú ganga úr skugga um hvort ég þurfi að fá formlega afgreiðslu fyrir þessu áður en ég fer að gefa upp nöfn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert