Fréttaskýring: Fór ráðherrann framhjá vegalögum?

Hugmyndir að Svínavatnsleið.
Hugmyndir að Svínavatnsleið. mbl.is

Að beiðni innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sendi vegamálastjóri bréf til þriggja sveitarfélaga á Norðvesturlandi í síðasta mánuði þar sem tilkynnt var að Vegagerðin mundi ekki vinna frekar að hugmyndum um styttingu hringvegarins framhjá Blönduósi og Varmahlíð í Skagafirði.

Þar með dró Vegagerðin til baka kröfur um að mögulegar veglínur færu inn á aðalskipulag sveitarfélaganna, m.a. svonefnd Svínavatnsleið.

Innanríkisráðherra tilkynnti þessa ákvörðun sína einnig til Skipulagsstofnunar; um að flutningur hringvegarins á þessum stöðum væri ekki inni í samgönguáætlun, hvorki til fjögurra né tólf ára. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra og flokksystir innanríkisráðherra, hafði áður úrskurðað að Blönduósbær og Húnvatnshreppur skyldu merkja sérstaklega veglínu Svínavatns/Húnavallaleiðar á nýjum aðalskipulagsuppdrætti áður en skipulagið fengist staðfest.

Af þessu hefur ekki orðið, enda hafa hugmyndir að nýjum veglínum mætt mikilli andstöðu heimamanna, sérstaklega á Blönduósi þar sem hringvegurinn liggur í gegn.

Var til skoðunar að færa hringveginn frá Blönduósi á nýja Svínvetningabraut um Húnavelli og að Langadal miðjum. Myndi þessi leið stytta hringveginn um 14 km með 17 km löngum nýjum vegi.

Gegn heildarhagsmunum

En það fagna ekki allir ákvörðun innanríkisráðherra og Vegagerðarinnar. Eyfirðingar hafa farið framarlega í flokki þeirra sem vilja ná fram vegarstyttingum milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þegar Blönduósbær gekk frá nýju aðalskipulagi haustið 2010, sem gildir til 2030, var ekki gert ráð fyrir færslu hringvegarins og af um 200 athugasemdum við skipulagið komu flestar frá Akureyri.

Njáll Trausti Friðbertsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar, dregur stórlega í efa að innanríkisráðherra hafi farið að lögum í málinu, hvort sem um er að ræða vegalög eða stjórnsýslulög. Vísar hann þar m.a. til 28. gr. vegalaga frá árinu 2007:

„Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar, að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegag. skal það rökstyðja það sérstaklega. Þó er sveitarfélagi óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér.“

Það er einmitt umferðaröryggið sem er ein helsta röksemd Njáls Trausta, fyrir utan arðsemina sem hann telur vera eina þá mestu á hringveginum öllum. Hann hefur skoðað slysatíðni á fimm mismunandi köflum á þjóðvegi eitt og komist að því að hún er mest á köflunum um Langadal og Blönduós, eða 1,67 og 2,01 slys á hverja milljón ekna kílómetra. Slysatíðnin á öðrum köflum var 0,79 til 1,04, þ.e. á Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og veginum um Víkurskarð og Svalbarðsströnd. Samkvæmt þessum útreikningum telur Njáll að fækka megi slysum um 10-11 á ári með því að fara nýja Svínavatnsleið. „Það er verið að taka sérhagsmuni umfram hagsmuni heildarinnar og um leið verið að vinna gegn öðrum byggðum og samkeppnishæfni annarra svæða,“ segir hann og bendir á að um helmingur umferðarinnar gegnum Blönduós tengist Akureyri með einum eða öðrum hætti. Ekki eigi þó að leggja niður núverandi vegi heldur bjóða vegfarendum upp á valkosti, vilji þeir stytta leið sína.

Óskar eftir rökstuðningi

Njáll Trausti Friðbertsson á Akureyri ritaði nýlega grein í Akureyri vikublað þar sem hann fjallar um ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra varðandi nýjar veglínur um Húnaþing og Skagafjörð.

„Þetta mál er dæmi um yfirgang þar sem ekki er litið til nokkurra raka, hvort sem tekið er tillit til umferðaröryggissjónarmiða, þjóðhagslegrar arðsemi styttinganna eða umhverfisþátta,“ ritaði Njáll Trausti m.a. í greininni og hvatti Ögmund Jónasson til að taka tillit til hagsmuna heildarinnar og endurskoða afstöðu sína. Sagði hann ráðherra hafa eyðilagt margra ára vinnu við að auka umferðaröryggi og draga úr ferðakostnaði. Njáll Trausti segist í samtali við Morgunblaðið ætla að senda Ögmundi bréf og óska eftir nánari rökstuðningi fyrir ákvörðun hans. Útilokar hann ekki að fara með málið lengra ef svörin verða að hans mati ófullnægjandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert