Að kjósa taktískt eða með hjartanu?

Val á kosningakerfi getur haft mikið að segja um úrslit …
Val á kosningakerfi getur haft mikið að segja um úrslit kosninga.

Í yfirvofandi forsetakosningum velta margir fyrir sér hvernig skynsamlegast sé að nýta atkvæði sitt og hvort greitt atkvæði geti haft jafn mikil áhrif og auður seðill eða jafnvel ekkert atkvæði.

Val á kosningakerfi getur haft áhrif á vægi atkvæða og nú stendur yfir netkosning til forseta Íslands sem leitast við að leiða í ljós hversu mikil áhrif kosningakerfi getur haft á niðurstöður. Að könnuninni standa stjórnmálafræðiprófessorarnir Indriði Indriðason og Gunnar Helgi Kristinsson ásamt dyggri aðstoð Viktors Orra Valgarðssonar stjórnmálafræðings.

„Við könnum hvort val á kosningakerfi hafi áhrif á úrslit kosninga, það er að segja hvort fólk kjósi með mismunandi hætti eftir því hvaða kosningakerfi það notar, sem framkallar síðan ólíkar niðurstöður,“ segir Viktor Orri.

Að sögn Viktors er mögulegt að sigurvegari í einu kosningakerfi lúti í lægra haldi í öðru kerfi.„ef fólk fengi til að mynda möguleikann á að forgangsraða eða tjá vilja sinn með fjölbreyttari hætti gæti staðan orðið allt önnur.“

Viktor Orri segir kosningakerfið hafa augljós áhrif á umræðuna í aðdraganda kosninga, „mikil umræða hefur verið um hvernig hægt sé að komast hjá því að sóa atkvæði sínu, að það að greiða ekki atkvæði jafngildi atkvæði til Ólafs Ragnars, það að greiða öðrum frambjóðendum en Þóru atkvæði jafngildi atkvæði til Ólafs Ragnars og fleira þvíumlíkt. Þetta endurspeglar efasemdir og rugling með núverandi kerfi,“ segir hann.

Ari og Herdís berjast gegn áhrifum núverandi kerfis

Að mati Viktors Orra er núverandi kerfi göllum háð, „það að kjósendur geti bara merkt við einn veldur því að þeir velja kannski þann skásta sem þeir telja að eigi möguleika á sigri frekar en að velja þann sem þeir vilja í raun. Þetta veldur til dæmis því að Ari, Herdís, Andrea og Hannes berjast í bökkum og þeirra barátta gengur að nokkru leyti út á að vinna gegn þessum áhrifum kosningakerfisins og fá fólk til að kjósa eftir eigin sannfæringu en ekki taktískt.“

Vonast er til að úrslit könnunarinnar verði ljós á sunnudag og þá verður að sögn Viktors forvitnilegt að sjá hvort úrslitin hefðu orðið önnur hefði annað kosningakerfi verið við lýði, eða hvort val á kerfi geti í það minnsta skekkt niðurstöðurnar merkjanlega. 

Viktor hvetur fólk til að taka þátt í könnuninni, „mikilvægt er að fá sem flesta þátttakendur til að auka áreiðanleika könnunarinnar. Niðurstöður hennar munu þá hafa meira gildi þegar ákvörðun um kosningakerfi framtíðarinnar verður tekin.“

Kosningin stendur fram á laugardagskvöld og hægt er að taka þátt með því að smella hér.

mbl.is