Landnámshænsnabóndi fær engin svör

Landnámshænur á Tjörn í Vatnsnesi.
Landnámshænur á Tjörn í Vatnsnesi. Júlíus Már Baldursson

„Ég fer ekki að framkvæma neitt hérna fyrr en ég er kominn með vissu fyrir því að ég megi vera hérna áfram,“ segir Júlíus Már Baldursson, landnámshænsnabóndi á Tjörn í Vatnsnesi.

Tjörn er ríkisjörð, með lífstíðarábúð. Júlíus tók við jörðinni af bróður sínum sem hafði haft jörðina á leigu og með vitund landbúnaðarráðuneytisins. Í kjölfar bruna fyrir tveimur og hálfu ári, sem mbl.is greindi frá hér á vefnum, sagði bróðir Júlíusar leigusamningnum upp og síðan hefur hann beðið þess að jörðin verði auglýst svo að hann geti sótt um áframhaldandi búsetu. Síðan eru hins vegar liðin tvö og hálft ár og ekkert bólar á auglýsingunni þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir og aðstoð Bændasamtakanna.

„Síðustu svör frá jarðadeild ráðuneytisins voru að jörðin yrði auglýst á vordögum, úthlutað í byrjun sumars og nýr ábúandi tæki við 15. ágúst,“ segir Júlíus. „Nú er kominn 16. júlí og ekki farið að auglýsa jörðina enn.“

Bráðabirgðaaðstaða sem stendur

Um tvö hundruð landnámshænur brunnu til kaldra kola með útihúsunum í brunanum á Tjörn forðum. Júlíus hóf ræktunina á ný og hefur aftur komið sér upp fullum stofni. Heldur hann fuglana í fjárhúsum á jörðinni sem stendur en þyrfti að einangra þau betur og gera betur úr garði. Myndi hann einnig vilja koma upp betri gestastofu til að taka á móti hópum sem kynna vilja sér íslensku landnámshænuna en sem stendur er aðeins um bráðabirgðaaðstöðu að ræða.

„Ég er ekki að fara fram á neinn forgang,“ segir hann. „En ég vil geta sótt um. Jörðin sem slík hentar ekki nútímabúskap í dag, til þess eru túnin of lítil, en hún hentar vel fyrir landnámshænurnar og ferðaþjónustu.“

Ekki fengust svör við hvað tefur málið hjá landbúnaðarráðuneytinu þegar mbl.is hafði þangað samband fyrr í dag.

Fjöldi fólks kemur að Tjörn og kynnir sér íslensku landnámshænuna …
Fjöldi fólks kemur að Tjörn og kynnir sér íslensku landnámshænuna árlega. Júlíus Már Baldursson
mbl.is