Vænlegt fólk valið á framboðslista

Atli Fannar Bjarkason, framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar.
Atli Fannar Bjarkason, framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar. mbl.is

„Vinna að framboðslistum hófst fyrir löngu og stendur ennþá yfir. Sérstök uppstillingarnefnd, sem kallast Nefndin, kastar nöfnum á milli sín ásamt því að hafa samband við fólk sem hefur annaðhvort sýnt framboði áhuga eða er vænlegt til framboðs. Nefndin hittist reglulega og vinnan gengur vel. Hún mun sjá um að gera tillögu að listum sem verða svo lagðir fyrir stjórnina til endanlegrar ákvörðunar.“

Þetta segir Atli Fannar Bjarkason, framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar, spurður að því með hvaða hætti verði staðið að vali á framboðslista flokksins fyrir þingkosningarnar næsta vor. Hann segir ennfremur aðspurður að ársfundur Bjartrar framtíðar verði næst í upphafi næsta árs, 2013.

Stjórnarfundur Bjartrar framtíðar verður að sögn Atla haldinn næstkomandi fimmtudag en í stjórn flokksins sitja 40 manns. „Þar verður lögð fram ályktun sem kallast einfaldlega Ályktun stjórnar Bjartrar framtíðar nr. 1. Hún inniheldur framtíðarsýn flokksins fyrir land og þjóð. Eftir umræður verða atkvæði um hana greidd. Svo ætlum við að halda partí.“ Af sama tilefni verði opnaðar heimasíður flokksins, annars vegar Bjortframtid.is og hins vegar Heimasidan.is þar sem málefnastarf hans fari fram sem öllum sé opið.

„Annars er mikið fjör í Bjartri framtíð þessa dagana. Við erum komin með nýtt húsnæði og erum einnig að koma okkur fyrir á Facebook og Twitter. Hvetjum alla til að finna okkur þar og fylgjast með,“ segir Atli að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina