Sagði skýrsluna vera þýfi

Frá Alþingi
Frá Alþingi mbl.is/Golli

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi harðlega á Alþingi sameiginlegan fund fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun þar sem fjallað var um skýrslu Ríkisendurskoðunar um kaup á bókhaldskerfi fyrir ríkið sem fjallað var um í Kastljósinu í gærkvöldi.

Sagði Vigdís að þegar þingmenn hefðu mætt til fundarins í morgun hefði enginn haft skýrsluna undir höndum eða haft tækifæri til þess að kynna sér hana aðrir en Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður fjárlaganefndar Alþingis. Þá sagði hún ljóst að skýrsla Ríkisendurskoðunar væri þýfi enda hefði málið verið kært til lögreglu af Ríkisendurskoðun.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það hins vegar döpur viðbrögð að kæra málið til lögreglu. Nær væri að leggja áherslu á að klára skýrsluna og beindi hann því til forseta Alþingis að koma þeim skilaboðum áleiðis.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði sjálfsagt að sá sem teldi frá sér stolið kærði það til lögreglu. Hins vegar væri ljóst að þær upplýsingar sem kæmu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar væru algerlega galnar. Ef farið hefði verið milljarða fram úr áætlun vegna málsins væri það algerlega óviðunandi.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, gagnrýndi Vigdísi fyrir að segja að Björn Valur hefði þýfi undir höndum og sagði hana þurfa að færa sönnur á mál sitt. Ennfremur sagði hann Vigdísi þurfa að biðja Björn Val afsökunar.

Vigdís sagðist einungis hafa verið að vísa til þess að Ríkisendurskoðun hefði kært það til lögreglu að umræddri skýrslu hefði verið stolið frá stofnuninni.

Vigdís Hauksdóttir og Birgir Ármannsson
Vigdís Hauksdóttir og Birgir Ármannsson mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert