Samræma þarf efnahagsmál og stjórnmál

David Miliband, fyrrverandi utanríkis- og umhverfisráðherra Bretlands, á fundinum í …
David Miliband, fyrrverandi utanríkis- og umhverfisráðherra Bretlands, á fundinum í dag. mbl.is/Ómar

Vandamál Evrópusambandsins og evrusvæðisins snúast fyrst og fremst um stjórnmál, efnahagsmál og sjálfsmynd íbúa sambandsins. Þetta kom meðal annars fram í ræðu sem David Miliband, fyrrverandi utanríkis- og umhverfisráðherra Bretlands, flutti í hátíðarsal Háskóla Íslands í dag. Húsfyllir var á fundinum og þó bætt væri við stólum í salinn þurftu margir að standa.

Miliband sagði lausnina á efnahagsvanda Evrópusambandsins felast í því að sjá til þess að efnahagsmálin og stjórnmálin væru samstiga. Efnahagsmálin kölluðu á aukinn samruna innan sambandsins á sama tíma og stjórnmálin stæðu í vegi fyrir því. Efnahagsmálin og stjórnmálin toguðu þannig í mismunandi áttir. Færa þyrfti meiri völd til stofnana Evrópusambandsins og stuðla að meiri samstöðu innan þess.

Stofnanir Evrópusambandsins of veikar

Miliband sagði ljóst að efnahagserfiðleikarnir á evrusvæðinu ættu eftir að leiða til grundvallarbreytingar á Evrópusambandinu. Samstaða væri um það að stofnanir Evrópusambandsins væru of veikar til þess að takast á við vandann og að ef það tækist að bjarga evrusvæðinu þýddi það að sambandið yrði þróað meira í átt að sambandsríki.

Hann sagði það hins vegar vissulega kaldhæðni örlaganna að Evrópusambandið, sem sett hafi verið á laggirnar ekki síst til þess að stuðla að stöðugleika í Evrópu væri í dag helsta ógnin við stöðugleika í heiminum.

Niðurskurður og hærri skattar ekki lausnin

Miliband gagnrýndi þær aðgerðir sem gripið hefði verið til fram til þessa innan evrusvæðisins til þess að ná tökum á efnahagsvandanum. Stórfelldur niðurskurður og skattahækkanir gerðu aðeins illt verra og hefðu meðal annars í för með sér að það hægðist á efnahagsbatanum og fjárfestar fældust frá svæðinu.

Hins vegar væru nú loksins að berast ýmsar jákvæðar fréttir frá evrusvæðinu. Þannig hefði lántökukostnaður ríkja lækkað og meiri samstaða náðst á milli Þýskalands og Evrópska seðlabankans um það hvernig taka ætti á vandanum. Hann sagðist sammála þeirri skoðun hagfræðingsins og Nóbelsverðlaunahafans Pauls Krugman að annaðhvort yrði Þýskaland að veita forystu út úr vandanum eða yfirgefa evrusvæðið. Sjálfur vildi hann það fyrrnefnda.

Rétt að standa fyrir utan evrusvæðið

Miliband lagði einnig áherslu á þá skoðun sína að Bretland hefði sterkari stöðu á alþjóðavettvangi innan Evrópusambandsins en utan þess. Hann væri þeirrar skoðunar að svæðisbundin samtök ríkja ættu eftir að styrkja stöðu sína í framtíðinni. Bretar ættu að taka sem allra virkastan þátt í þróun sambandsins og einnig á sviðum þar sem þeir tækju ekki fullan þátt eins og varðandi ervusvæðið. Þeir hefðu samt sem áður mikið fram að færa í þeim efnum.

Ennfremur sagðist hann þeirrar skoðunar í svari við fyrirspurn að það hafi verið rétt ákvörðun hjá Bretum að gerast ekki aðilar að evrusvæðinu. Sú ákvörðun hefði verið byggð á hagsmunamati. Hann vildi ekki nefna neina dagsetningu um það hvenær til þess gæti komið að evran yrði tekin upp í Bretlandi en sjálfur hefði hann áður sagt að hann sæi það ekki fyrir sér um fyrirsjáanlega framtíð.

Evrópusamband Camerons ekki lengur til

Þá var einnig komið inn á það í fyrirspurnum hvort Miliband teldi líklegt að Bretar yfirgæfu Evrópusambandið á einhverjum tímapunkti og sagði hann að ekki væri hægt að útiloka það. Hann lagði hins vegar áherslu á að Bretland þyrfti að leggja sitt að mörkum til þess að skapa Evrópusamband sem rúmaði evrusvæðið án þess að öll ríki þyrftu að taka þátt í því.

Hann sagði rétt að skoða þá hugmynd að Evrópusambandið þróaðist á mismunandi hraða þannig að sum ríkin gætu farið hraðar í samrunaþróuninni en önnur. Það mætti hins vegar ekki verða til þess að komið yrði fram við þau ríki sem færu sér hægar sem annars flokks. Það yrði aðeins til þess að grafa undan Evrópusambandinu og auka líkurnar á því að ríki eins og til að mynda Bretland segðu skilið við það.

Miliband ræddi einnig um umræðuna um Evrópumál í Bretlandi og sagði hana vera mjög neikvæða. Áherslan væri á ókosti Evrópusambandsins. Hins vegar væri það stefna núverandi ríkisstjórnar að hagsmunum Breta væri betur borgið innan sambandsins. Hann sagðist þó telja að ástæða þeirrar afstöðu Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sneri aðeins að innri markaðinum. En það Evrópusamband sem Cameron væri með í huga í því sambandi væri ekki lengur til.

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Ómar
mbl.is