Háskóli Íslands enn meðal 300 bestu

Háskóli Íslands er meðal 300 bestu háskóla heims.
Háskóli Íslands er meðal 300 bestu háskóla heims. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bandaríski háskólinn California Institute of Technology er besti háskóli heims samkvæmt nýju mati breska tímaritsins Times Higher Education sem birt var í kvöld. Háskólar í Asíu sækja á á meðan vestrænir háskólar missa forskotið. Háskóli Íslands er enn í hópi 300 bestu skólanna og þokast ofar upp listann. 

Times Higher Education gefur árlega út mælingar sínar á háskólum heims sem byggja m.a. á kennslu, rannsóknum og fjölda tilvísana. Sem fyrr bera bandarískir háskólar höfuð og herðar yfir flesta aðra, en af efstu 10 háskólunum eru 7 í Bandaríkjunum  Annað árið í röð situr California Institution of Technology í toppsæti listans, Oxford háskóli í Bretlandi er í öðru sæti, Stanford í þriðja, þá Harvard og MIT háskóli í fimmta sæti. 

Sænskir skólar bestir á Norðurlöndum

Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn inn á topp 300 listann í fyrra og var þá í 276.-300. sæti. Í ár þokast hann enn upp á við og mælist í 251.-275. sæti. Af Norðurlöndunum skorar Svíþjóð hæst, því tveir sænskir háskólar eru meðal 100 besta háskóla heims að mati Times. Það eru Karolinska Institute í 42. sæti, háskólinn í Lundi í 82. sæti auk þess sem Uppsalaháskóli er í 106. sæti og Stokkhólmsháskóli í 116. sæti.

Þrír stærstu háskólar Danmerkur færðust upp listann, Árósaháskóli er í 116. sæti, Kaupmannahafnarháskóli í 130. sæti og Tækniháskólinn í Danmörku í 149. sæti. Háskólinn í Helsinki er í 109. sæti, en Noregur kemur verst út í Skandinavíu og á engan háskóla á topp 200 listanum þetta árið. 

Breskir háskólar féllu margir hverjir niður um sæti, í kjölfar niðurskurðar í menntakerfinu þar. Á hinn bóginn eru asískir háskólar á uppleið og eru tveir stærstu háskólar Kína nú á topp 50 listanum. Hástökkvarinn er háskólinn í Seoul, sem fór úr 124. sæti í fyrra í 59. sæti í ár. 

Listi Times Higher Education yfir bestu háskóla heims.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert