Makríllinn tefur ESB-viðræður

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Ljósmynd/Europa.eu

Utanríkisráðherra segir ljóst að makríldeilan hafi spilað inn í viðræður Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Það sjáist á þeim töfum sem orðið hafa á opnun kaflans um sjávarútvegsmál. Hann segir það mikil vonbrigði. Þetta kom fram í umræðu um stöðu aðildarviðræðnanna á Alþingi í dag.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hóf umræðuna og benti á að meira en tvö ár séu síðan viðræðurnar hófust. Átján kaflar hafi verið opnaðir af 35 og tíu lokað tímabundið. Aðeins einn þeirra heyri ekki undir EES-samninginn og erfiðustu kaflarnir séu enn eftir. 

Hún sagði fullyrðingar um að viðræðurnar væru á áætlun sérstakar en kannski væri auðvelt að halda áætlun sem sífellt tekur breytingum. Hún sagði viðræðunum líklega ekki ljúka fyrr en talið væri víst að samningur um aðild yrði samþykktur hér á landi.

Þá spurði hún ráðherra meðal annars að því hvaða Evrópusamband það væri sem Ísland sæktist eftir aðild að. Það væri ekki það samband sem til er í dag, hugsanlega yrði það sambandsríki.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði það hafa vakið athygli sína að Ragnheiður Elín hefði ekki gert að umræðuefni þá kröfu Sjálfstæðisflokksins að slíta beri viðræðunum. Það sé í fyrsta skipti í marga mánuði sem það sé ekki gert.

Ráðherra sagðist gera ráð fyrir að 29 kaflar hafi verið opnaðir um áramót og samningum lokið um helming þeirra. Erfiðu kaflarnir yrðu þá opnaðir á næsta ári. Hann sagðist telja þetta góðan gang í viðræðunum.

Þá sagði Össur að miðað við síðustu fregnir frá ESB væri það ekki sambandsríki sem Ísland væri að sækja um aðild að.

Meðal þeirra sem tóku þátt í umræðunni var Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks. Hún sagði málið verða kosið burtu í næstu kosningum fengju þeir flokkar sem andvígir eru aðild að Evrópusambandinu meirihluta. Þannig væri hægt að losna við þetta mál fyrir fullt og allt, „þessa ESB-umsóknar-martröð“.

mbl.is

Bloggað um fréttina