Slysagildra á Reykjanesbrautinni

Reykjanesbraut var tvöfölduð með geil milli en ekki hefur verið …
Reykjanesbraut var tvöfölduð með geil milli en ekki hefur verið sett vegrið milli akstursátta. mbl.is/Rax

Bíll sem rann í hálku á Reykjanesbraut á morgun flaug yfir gagnstæðar akreinar og valt þaðan út af veginum. Þrefalt banaslys varð með svipuðum hætti á Hafnarfjarðarvegi árið 2009. Setja þyrfti upp vegrið á allri Reykjanesbraut til að koma í veg fyrir svona slys, en það kostar milljónir. Myndir af vettvangi slyssins fylgja hér að neðan en þar sést að hann hentist nokkra metra.

Flaug yfir tvær akreinar

Ökumaður bílsins sem rann í hálku á Reykjanesbraut við Vogaafleggjara, skömmu fyrir sex í morgun, slasaðist ekki alvarlega en bíllinn gjöreyðilagðist, samkvæmt lögreglu. Slysið virðist hafa orðið með þeim hætti að ökumaður missti stjórn á bílnum í hálku, hann rann ofan í geil á milli akreinanna og kastaðist þaðan aftur upp á veginn hinum megin og yfir báðar akreinarnar þaðan sem hann valt svo út af. Ljóst má vera að verr hefði getað farið ef slysið hefði orðið á háannatíma og bíllin lent á öðrum úr gagnstæðri átt. 

Sambærileg slys hafa orðið áður orðið þar sem tvöfaldur vegur var aðskilin með geil á milli, án vegriðs. Þegar bíll fer á fullum hraða ofan í slíka lægð myndar hún nokkurs konar stökkpall sem þeytir bílnum á loft í stað þess að stöðva hann. Eitt hörmulegasta slysið á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnesbrú á aðventunni 2009, en þar fór bíll ofan í geilina milli akstursstefna, hentist yfir á hina akreinina og lenti þar ofan á þaki og húddi bíls sem kom úr gagnstæðri átt. Þrír menn létust í því slysi.

Reykjanesbrautin 10 ára en ekki tilbúin

Ólafur Kr. Guðmundsson, verkefnisstjóri EuroRap á Íslandi, úttektar á öryggi vega, segir að til að koma í veg fyrir svona slys þurfi annað hvort að fylla upp í geilina milli vegahelminga, sem höfð er til að safna vatni og snjó, eða þá setja upp vegrið. „Þetta slys er enn ein áminningin um að það verður að klára þennan blessaða veg. Reykjanesbrautin er orðin 10 ára gömul en er enn ekki fullkláruð með tilliti til umferðaröryggis.“

Í Ártúnsbrekku hefur einnig orðið slys með sama hætti sem og á Vesturlandsvegi við Grafarholt. Í júlí 2006 kastaðist fór lítill Volkswagen Polo þar út af, kastaðist úr geilinni yfir á gagnstæða akrein og flaug þar framan á jeppa í 50 cm hæð yfir veginum. Í kjölfarið var sett upp vegrið á báðum stöðum.

Vegrið kostar tugi milljóna

Vegagerðin hefur raunar unnið að því um nokkurra mánaða skeið að setja upp vegrið á öllum vegaköflum höfuðborgarsvæðisins þar sem eru tvöfaldar akreinar, s.s á Miklubraut, á Vesturlands- og Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut í Hafnarfirði. Verkefnið er liður í umferðaröryggisáætlun Vegagerðarinnar, en rannsóknir sýna að ein áhrifamesta aðgerðin til að auka umferðaröryggi er að aðskilja akstursstefnur.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni nær umferðaröryggisáætlunin hins vegar ekki svo langt að sett verði upp vegrið meðfram allri Reykjanesbraut, og ekki þar sem slysið varð í morgun. G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar bendir á að hver kílómetri af vegriði kosti 10-13 milljónir og Reykjanesbrautin sé um 40 km. Kostnaðurinn yrði því mikill og ekki sé gert ráð fyrir honum í samgönguáætlun Alþingis.

Árekstur tveggja bíla á 110 km hraða?

Í þessu samhengi er vert að rifja upp hugmyndir um að hækka hámarkshraða á Reykjanesbraut, en þær hafa öðru hverju verið ræddar síðan hafist var handa við að tvöfalda veginn. Nú síðast í september lagði Þorgerður Katrín Gunnlaugsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrirspurn fyrir Ögmund Jónasson innanríkisráðherra um hvort hann hyggist beita sér því að hækka hámarkshraðann frá Hafnarfirði til Keflavíkur í 110 km hraða á klukkustund. 

Fyrirspurninni hefur enn ekki verið svarað, en færa mætti rök fyrir því að slík breyting sé ekki ráðleg á meðan ekki hefur verið sett upp vegrið til að koma í veg fyrir að bílar fari yfir á rangan vegarhelming. Sjá má í hendi sér að harður og alvarlegur árekstur gæti orðið þar sem bíll á 110 kílómetra hraða hendist upp úr geilinni líkt og gerðist í morgun, framan á annan bíl á 110 km hraða úr öfugri átt. 

Ólafur segir þó að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að hækka hámarkshraðann á Reykjanesbraut, hönnun hennar beri 110 km hraða, þegar búið verður að fullklára verkið með því að ganga frá öryggisatriðum. „Það þarf að setja upp vegrið, setja ljósastaura af viðurkenndri gerð og laga veghliðarnar þar sem er hátt fall eða hraunklettar. Í mínum huga kemur ekki til greina að hækka hámarkshraðann fyrr en þetta er klárað.“

Eftir þrefalt banaslys á Hafnarfjarðarvegi var sett upp vegrið til …
Eftir þrefalt banaslys á Hafnarfjarðarvegi var sett upp vegrið til að koma í veg fyrir að bílar lendi í öfugri akstursstefnu. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Hér sést hvar bíllinn fór ofan í geilina í morgun, …
Hér sést hvar bíllinn fór ofan í geilina í morgun, og yfir á öfugan vegarhelming. Þakka má fyrir að hann lenti ekki framan á vörubíl eins og hér kemur úr gagnstæðri átt. Ljósmynd/Ólafur Kr. Guðmundsson
Hér sést hvar bíllinn hentist upp úr geilinni og yfir …
Hér sést hvar bíllinn hentist upp úr geilinni og yfir á öfugan veghelming. Ljósmynd/Ólafur Kr. Guðmundsson
Hér sjást hjólbarðaför á veginum þar sem bíllinn fór út …
Hér sjást hjólbarðaför á veginum þar sem bíllinn fór út af hinum megin eftir að hafa kastast yfir tvær akreinar fyrir umferð í öfuga átt. Ljósmynd/Ólafur Kr. Guðmundsson
Hér endaði svo för bílsins í vegkantinum hinum megin við …
Hér endaði svo för bílsins í vegkantinum hinum megin við eftir að hafa þverað alla Reykjanesbrautina. Ljósmynd/Ólafur Kr. Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert