Rafrænn kóði í jólagjöf?

Rafbækur njóta sífellt meiri vinsælda.
Rafbækur njóta sífellt meiri vinsælda.

Oft er óverulegur munur á verði rafbóka í innlendum og erlendum netverslunum, en mbl.is bar saman verð á nokkrum vinsælum erlendum bókum í tveimur erlendum og tveimur innlendum netverslunum. 

Rafbókaútgáfa fer vaxandi hér á landi, en býsna misjafnt er hversu mikla áherslu bókaútgefendur leggja á þetta form hins ritaða orðs. Bókaútgefandi segir að rafbækur séu fyrst og fremst keyptar til eigin nota, pappírsútgáfan verði fyrir valinu þegar gefa eigi bók.

Nokkrar íslenskar verslanir höndla með rafbækur á netinu. Flestar þeirra selja einungis íslenskar bækur, eins og t.d. Skinna.is og Emma.is. Eymundsson og Ebækur selja bæði innlenda og erlenda titla og svo selja sumir útgefendur líka eigin útgáfu í rafbókarformi á vefsíðum sínum.

Þá eru ótaldar vefsíður sem bjóða upp á afmarkað  úrval rafbóka, þeirra á meðal eru rafbokavefur.is þar sem lesa má nokkrar íslenskar rafbækur í opnum aðgangi og lestu.is þar sem boðið er upp á ýmis sigild verk, bæði innlend og erlend, gegn greiðslu.

Verðkönnun á metsölubókum

Mbl.is bar saman verð á nokkrum nýlegum rafbókum, sem ýmist eru nýútkomnar eða á metsölulistum, en að öðru leyti voru þær valdar af handahófi. Skoðað var verð í netverslununum Eymundsson.is, Ebækur.is, Amazon.uk sem er Amazon í Bretlandi og Amazon.com sem er í Bandaríkjunum.

Skoðað var verð á sex bókum og var Amazon.uk með lægsta verðið á fjórum bókanna og á hinum tveimur bókunum var lægsta verðið hjá Amazon.com, sem reyndar var með hæsta eða næsthæsta verðið á þremur bókanna.

Oft munaði ekki miklu, eins og sjá má af skýringamyndinni, til dæmis er lægsta verð bókarinnar The Inn at Rose Harbour 751 króna hjá Amazon.uk, en bókin kostar 799 krónur hjá Eymundsson.is. Þá munar litlu á verði bókarinnar Peter the Great, sem er ævisaga Péturs mikla, hjá Amazon.com og hjá Ebækur.is.

Epub eða Kindle?

Misjafnt er í hvaða formi og fyrir hvers konar tölvur og forrit bækurnar henta. Bækurnar sem seldar eru hjá Ebókum og Eymundsson virka ekki fyrir Kindle-lestölvur, en samkvæmt vefsíðunum eru þær í svokölluðu epub-formi, sem er alþjóðlegur staðall fyrir rafbækur og virkar fyrir flestar tölvur og forrit, að Kindle undanskildu. Að auki er hægt að hlaða niður ýmsum lesforritum á síðunum.

Amazon selur aftur á móti bækur fyrir Kindle-lestölvuna. En rafbækur í Kindle formi má fá hjá öðrum söluaðilum, meðal annars hjá Skinnu.is. Þá eru ýmis forrit á netinu þar sem breyta má formi bókanna í annað form, til dæmis úr epub yfir í Kindle og öfugt.

Misjöfn áhersla á rafbækur hjá útgefendum

Ekki er langt síðan farið var að gefa út rafbækur hér á landi. Félagar í Rithöfundasambandi Íslands samþykktu samning fyrir tæpu ári um hlut rithöfunda af verði hverrar rafbókar og útgáfa þeirra hófst fljótlega eftir það, en er afar mismunandi eftir útgáfufyrirtækjum. Til dæmis gefur Forlagið flesta sína titla út í rafbókarformi, en Bókaútgáfan Salka hefur gefið út um sex titla í þessu formi. Til stendur að auka við rafbókaúgáfu innan tíðar.

Enginn tollur, en vaskur er lagður á

Þegar rafbækur eru keyptar í erlendri netverslun eins og Amazon eru engir tollar lagðir ofan á verðið, þar sem ekki er um áþreifanlega vöru er að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá virðisaukaskattsdeild Ríkisskattstjóra er lagður virðisaukaskattur á rafbækur sem keyptar eru í erlendum netverslunum. Skatturinn leggst ofan á verð bókarinnar og síðan sér verslunin um að greiða hann til Ríkisskattstjóra. Stórar verslanir, eins og Amazon, hafa stofnað virðisaukaskattsnúmer hér á landi í þessum tilgangi.

Koma seinna út en prentaðar bækur

Allur gangur er á því hvort einhver munur er á verði rafbóka og prentaðra bóka hjá stærstu bókaútgefendum landsins, í sumum tilvikum er verðið það sama og stundum eru jafnvel rafbækurnar dýrari. Þá leiddi lausleg könnun á verði íslenskra rafbóka í ljós að óverulegur munur er á verði þeirra eftir bókaverslunum

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, segir að yfirleitt komi rafbækur seinna út en prentaða útgáfan og að sá háttur sé líka hafður á víða erlendis. „Við erum að feta okkar fyrstu skref í rafbókaútgáfunni og við viljum leyfa prentuðu bókinni að koma út fyrst. En ég held að sá tími, sem þarna líður á milli, eigi fljótlega eftir að styttast, þetta er vaxandi markaður og hugsanlega munu rafbækurnar koma út á undan þeim prentuðu áður en langt um líður,“ segir Egill.

Vilja ná samningum við Amazon

Að sögn Egils hefur Forlagið ítrekað reynt að ná samningum við Amazon um að selja þar þær bækur sem Forlagið gefur út, þannig að hægt sé að fá þær fyrir Kindle-lestölvur. Hingað til hefur það ekki tekist og bækur Forlagsins eru því gefnar út á epub-sniði.

Rafrænn kóði í jólagjöf?

Spurður að því hvort hann eigi von á að rafbækurnar verði vinsælar til jólagjafa segist hann ekki gera ráð fyrir að rafrænn kóði í stað prentaðrar bókar verði jólagjöfin í ár. „Fólk kaupir rafbækur fyrst og fremst til eigin nota, en síður til gjafa. En kannski hugsa einhverjir sér gott til glóðarinnar á aðfangadagskvöld að kaupa sér þær rafbækur, sem þeir ekki fengu í prentútgáfu, í jólagjöf, þannig að þeir verði ekki uppiskroppa með lesefni yfir hátíðarnar.”

Lestölva af gerðinni Kindle.
Lestölva af gerðinni Kindle. Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is