Pakkað fyrir Suðurpólinn

Nú fer að styttast í að Vilborg Arna Gissurardóttir fari af landi brott en eins og kunnugt er hefur hún göngu sína á Suðurpólinn á næstunni. Mbl leit við þar sem Vilborg var að pakka niður fyrir ferðalagið en jólamáltíðin verður þurrkað hreindýrakjöt ásamt dós af malti og appelsíni.

Ef Vilborgu tekst ætlunarverk sitt verður hún fyrsta íslenska konan sem nær þessu metnaðarfulla markmiði. Leiðin er 1.140 km löng eða um 1.500.000 spor og búast má við miklum mótvindi, erfiðu skíðafæri og rifsköflum. Kuldinn á Suðurskautinu getur farið allt niður í -40°C.

Vilborg verður með tvo sleða fyrir vistir og útbúnað sem vega 100 kg. Áætlaðir göngudagar eru 50 talsins, en til þess að ná því þarf Vilborg að ganga að meðaltali rúmlega 22 km á dag. Hún gerir ráð fyrir styttri vegalengdum í byrjun á meðan hún er að venjast aðstæðum og sleðinn er full lestaður. Eftir því sem líður á ferðina verður sleðinn léttari og gera má ráð fyrir að hann léttist um 1 kg á dag.

Hver dagur í leiðangrinum verður henni áskorun og líkamlegt erfiði. Áætluð brennsla á dag er um 6.000 hitaeiningar. Maturinn þarf því bæði að vera orkuríkur, fara vel í maga og má alls ekki vega mikið. Mataræði Vilborgar mun einkennast af þurrmati, fitu, harðfiski, múslí, kexi og súkkulaðistykkjum. Á hverjum morgni mun hún þurfa að bræða snjó fyrir dagsneyslu en morgunverkin geta tekið allt að tvo klukkutíma.

Nánar má lesa um förina á  www.lifsspor.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert