Ráðið mun taka á móti öllum kvörtunum

Landakotsskóli.
Landakotsskóli. mbl.is/Jim Smart

„Ég á von á því að þeim sem kvörtuðu til rannsóknarnefndarinnar um ofbeldi gefist færi á að gera kröfu fyrir fagráðinu.“ segir Eiríkur Elís Þorláksson, sérfræðingur við HR/hæstaréttarlögmaður og formaður nýskipaðs fagráðs kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

Aðspurður hvort starf ráðsins muni einungis snúast um kvartanir þeirra sem kvörtuðu til rannsóknarnefndarinnar eða hvort auglýst verði eftir fleiri kvörtunum segir Eiríkur: „Fyrsti fundur ráðsins verður haldinn á næstu dögum eða í öllu falli mjög fljótlega. Þá verður ákveðið hvernig staðið verði að framkvæmdinni, sem slíkri. Þá verður einnig ákveðið hvort lýst verði eftir kröfum í formi innköllunar eða hvort að ráðið muni hafa frumkvæði að því að óska eftir afstöðu fólks, eða hvoru tveggja. Í framhaldinu þarf síðan að taka afstöðu til krafna ef þær berast. Þá er hlutverk ráðsins líka fólgið í því að gefa einhvers konar ráðgjöf um hvernig eigi að innleiða þær tillögur sem rannsóknarnefndin lagði til í skýrslunni.“ 

„Ég hygg að svona fyrst um sinn verði allavega reynt að hraða þessari vinnu varðandi hverja og eina kröfu,“bætir Eiríkur við.

Setja ekki stranga fresti

Eiríkur segist ekki vita fyrirfram umfangið á þessu öllu saman, enda sé ekki vitað hversu margir muni skila inn kröfum, en hann telur þó að ráðið nái að skila af sér innan þess tímamarks sem því var sett, þ.e. fyrir 1. júní 2013.

„Sá sem telur sig eiga lögvarinn rétt verður auðvitað að fá svigrúm til að senda okkur kröfu og sjónarmið sín að baki henni þannig að við viljum ekki vera að setja of stranga fresti í því,“ segir Eiríkur og bætir við að ekki sé búið að ákveða frestina en reynt verði að hafa þá það rúma að fólk geti undirbúið kröfur sínar af kostgæfni en þó ekki of langa þannig að vinnan dragist óhóflega.

Eiríkur Elís Þorláksson, sérfræðingur við HR/hæstaréttarlögmaður og formaður nýskipaðs fagráðs …
Eiríkur Elís Þorláksson, sérfræðingur við HR/hæstaréttarlögmaður og formaður nýskipaðs fagráðs kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: