Framlög til sanngirnisbóta hækka

Sérstök rannsóknarnefnd felldi áfellisdóm yfir kaþólsku kirkjunni vegna misnotkunar á …
Sérstök rannsóknarnefnd felldi áfellisdóm yfir kaþólsku kirkjunni vegna misnotkunar á nemendum Landakotsskóla. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framlög til sanngirnisbóta barna og vistmanna, sem urðu fyrir ofbeldi í Landakotsskóla og Heyrnleysingjaskólanum, verða hækkuð um 116 milljónir króna ef frumvarp til fjáraukalaga nær fram að ganga.

Í frumvarpinu segir að útistandandi framlög nemi 176 milljónum króna, sem falli til árin 2016 til 2018.

Afmörkunin dæmd ólögmæt

Bæturnar eru sagðar af tvennum toga.

„Annars vegar vegna dóms Hæstaréttar í máli fyrrverandi nemenda við Heyrnleysingjaskólann frá 17. desember 2015. Skilyrði fyrir bótagreiðslu er að stofnun hafi sætt könnun vistheimilanefndar. Allar stofnanirnar nema ein voru kannaðar allan starfstíma þeirra. Undantekningin var Heyrnleysingjaskólinn. Vistheimilanefnd afmarkaði könnunina við hluta starfstímans af tilgreindum ástæðum.“

Hæstiréttur hafi dæmt þá afmörkun ólögmæta fyrir tæpu ári. Því þurfi að gefa þeim fyrrverandi nemendum skólans, sem voru þar utan könnunartímans, kost á að sækja um bætur.

Frétt mbl.is: Sanngirnisbætur eiga rétt á sér

Hins vegar snýr framlagið að samþykkt laga sem heimila það að taka til greina kröfur frá fyrrverandi nemendum Landakotsskóla.

„Til þess þarf að kalla eftir kröfum þeirra og búast má við að á bilinu 27-50 einstaklingar krefjist bóta.“

Frá kynningu á skýrslu vistheimilisnefndar.
Frá kynningu á skýrslu vistheimilisnefndar. mbl.is/Golli

Á þriðja milljarð króna í sanngirnisbætur

Fram kemur í frumvarpinu að á síðasta ári hafi verið búið að greiða 2.153 milljónir króna úr ríkissjóði í sanngirnisbætur til fyrrverandi vistmanna níu vistheimila sem störfuðu á síðustu öld, frá því greiðslur hófust árið 2010. Er áætlað að þeim ljúki á yfirstandandi ári.

Umrædd vistheimili eru Breiðavík, Heyrnleysingjaskólinn, Kumbaravogur, Reykjahlíð, Bjarg, Silungapollur, Jaðar, Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins.

Í frumvarpi til fjárlaga, sem lagt var fyrir Alþingi fyrr í mánuðinum, er enn fremur lagt til að fjárheimild vegna sanngirnisbóta verði aukin, um 130 milljónir króna, vegna Landakotsskóla og Kópavogshælis.

Frétt mbl.is: Sanngirnisbætur hækka

mbl.is