Sanngirnisbætur hækka um 130 milljónir á fjárlögum

Landakotsskóli.
Landakotsskóli. mbl.is/Jim Smart

Fjárheimild til að greiða út sanngirnisbætur vegna barna sem urðu fyrir ofbeldi í Landakotsskóla og vegna vistmanna á Kópavogshæli hefur verið aukin um 130 milljónir milli ára samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi. Nemur hækkunin 50 milljónum vegna málefna Landakotsskóla og 80 milljónum vegna vistmanna Kópavogshælis.

Í ár voru sanngirnisbætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn 50 milljónir samkvæmt fjárlögum. Hækka þær sem fyrr segir um 130 milljónir vegna tveggja mála, en á móti kemur lækkun upp á 35 milljónir í samræmi við áætlun um mál þar sem lokað hefur verið fyrir umsóknir um bætur. Rúv segir frá málinu í dag. 

Alls óskuðu 33 einstaklingar eftir sanngirnisbótum frá íslenska ríkinu vegna illrar meðferðar eða ofbeldis af hálfu kaþólsku kirkjunnar hér á landi, en mbl.is greindi frá því að 18 körlum og 15 konum hefðu verið send sáttarboð um bótaupphæð á bilinu 2,2 til 6 milljónir króna.

Í frétt Rúv er haft eftir Guðrúnu Ögmundsdóttur, tengilið vistheimilanna, að bæturnar séu greiddar í þrennu lagi samkvæmt lögum og að þessir liðir verði á fjárlögum svo lengi sem fólk eigi inni greiðslur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert