Töluvert um lifandi síld

Mikið er um dauða síld í Kolgrafarfirði.
Mikið er um dauða síld í Kolgrafarfirði. Ljósmynd/Róbert Arnar Stefánsson

„Það er enn töluvert um síld, lifandi síld, þannig að það eru þó góðar fréttir,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunarinnar, en leitað var að lifandi síld í Kolgrafafirði í dag. Fulltrúar Hafró halda áfram rannsóknum í fyrramálið.

Eins og komið hefur fram á mbl.is gengur síld á land og drepst í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi. Þorsteinn segir að rannsókn Hafró í dag hafi falist í því að bátur var fenginn til að sigla um fjörðinn í leit að lifandi síld, og hún hafi fundist. Verkefni morgundagsins er hins vegar að skoða umhverfisþætti, hita, seltu, súrefni, brennistein og taka myndir með neðansjávarmyndavélum til að reyna að meta magnið.

Á morgun verður gögnum safnað og hefst úrvinnsla á miðvikudag. Óvíst er hvenær niðurstaða liggur fyrir en hugsanlega á fimmtudag hvað einhverja þætti varðar.

Allmargar kenningar hafa komið fram um það hvað hafi valdið dauða síldarinnar. Ein þeirra er að síldin hafi drepist úr kulda en önnur og ólíklegri að súrefni hafi þrotið í firðinum. „Við erum ekki búnir að útiloka það en teljum það mjög ólíklegt, einfaldlega vegna þess að þarna eru svo mikil skipti á sjó í flóði og fjöru. Og það akkúrat á þeim stöðum þar sem síldin heldur sig, á mesta dýpinu.“

Þorsteinn segir einnig að Hafró hafi áður mælt meira af síld á þessum slóðum en núna og því sjái hann ekki samhengið milli fjöldans og súrefnisleysis. 

Hann segir að hugsanlega muni það aldrei koma í ljós hvað olli dauða síldarinnar. „En við vonumst til að með þessum rannsóknum vörpum við einhverju ljósi á það. Ef það er þessi kólnun sem menn hallast helst að þá er allt eins víst að það verði aldrei óyggjandi svör, þar sem það er eitthvað sem getur gerst á nokkrum klukkustundum og gengið svo til baka.“

mbl.is