Bækur sendar heim til veðurtepptra

Í gær, hríðardaginn 6. mars, mælti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með því að fólk héldi sig heim og læsi bók. En margir höfðu greinilega ekki nóg lesefni þrátt fyrir eindreginn lestrarvilja lögreglunnar því fljótlega eftir að Bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda opnaði í Perlunni eins og auglýst var klukkan tíu, hóf síminn að hringja og bókþyrst fólk bað um að fá lesninguna senda heim.

Reynt var að mæta þessum óskum eftir föngum eftir því sem veður og aðstæður leyfðu og allan daginn sendust fulltrúar Bókamarkaðarins með pantanir til þeirra sem hlýddu tilmælum almannavarna. Þetta er nokkuð sérstakt og man enginn eftir því að þetta hafi gerst nokkru sinni áður. Bæði er það að svo slæmt veður líkt og var miðvikudaginn 6. mars hefur ekki orðið á meðan Bókamarkaðurinn stendur yfir í manna minnum og síðan hitt að fólk virðist löghlýðnara en áður og vita að þegar það er beðið um að vera heima og lesa, þá á það að vera heima og lesa.

 Stjórnandi Bókamarkaðarins, Kristján Karl Kristjánsson, segir í tilkynningu að þetta breyti ekki miklu um heildarsöluna, þetta séu bók og bók sem fólk panti. Hann voni að með þessu hafi starfsfólk Bókamarkaðarins ekki raskað almannareglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert