Leggja áherslu á efri byggðir og Skerjafjörð

Áhersla er lögð á að ryðja götur og gangstéttir þar sem færðin er þyngst í Reykjavík svo sem í efri byggðum og í Skerjafirði þar sem skóf mikið frá flugvelli, samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar.

„Ástandið er að verða nokkuð gott, tækin eru farin að komast inn í hverfin til vinnu í húsagötum en þar er ástandið erfitt vegna ófærðar og bíla sem eru fyrir,“ segir Guðjóna Björk Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þjónustu og reksturs borgarlandsins hjá Reykjavíkurborg, í tilkynningu.

Unnið var til klukkan 23 í gærkvöldi en þá héldu tveir bílar áfram til klukkan fjögur í nótt. Þá bættist við mannskapur á tækjum við að ryðja, salta og sanda götur, lóðir stofnana biðstöðvar strætó, sem og göngu- og hjólaleiðir.

Allur tiltækur mannskapur er við þessi verkefni; dráttarvélar borgarinnar, 10 talsins, auk 35 verktaka á gröfum og ruðningstækjum. Allir 11 flokkabílar hverfastöðvanna eru úti við störf fullmannaðir og vinna einkum við hreinsun á tröppum og biðskýlum. Unnið verður af krafti í allan dag.

Áhersla er lögð á staði þar sem færðin er þyngst svo sem í efri byggðum og í Skerjafirði þar sem skóf mikið frá flugvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert