Óveður í Öræfum og undir Eyjafjöllum

mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Spáð er austanstormi sunnanlands, hviður verða allt að 30-40 m/s undir Hafnarfjalli fram eftir morgni og meira og minna hviðuveður í allan dag undir Eyjafjöllum, Mýrdal og í Öræfasveit. Ýmist þar sandfok eða hríðarbylur með takmörkuðu skyggni.

Þá er útlit fyrir ofanhríð á fjallvegum á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum, einkum sunnantil. Skafrenningur verður víða um norðanvert landið í dag en úrkomulítið. Á Hellisheiði og Mosfellsheiði verður snjókoma og blint með köflum í mest allan dag, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.

Það eru hálkublettir á Hellisheiði og Sandskeiði.  Hálkublettir og éljagangur er á Mosfellsheiði og á Gjábakkavegi.

Á Vesturlandi er snjóþekja á Bröttubrekku. Hálka er á  Vatnaleið og á norðanverðu Snæfellsnesi. Þæfingsfærð er  fyrir nesið. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Fróðárheiði. Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði.

 Á Vestfjörðum  eru flest allir vegir ófærir en mokstur hafin. Snjóþekja er á Gemlufallsheiði en snjóþekja eða hálka á öðrum leiðum í kringum Ísafjörð. Snjóþekja er á Hálfdáni og á Mikladal. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði  og á Þröskuldum. Snjóþekja er á Innstrandarvegi.

 Á Norðurlandi vestra  eru hálkublettir og skafrenningur á flestum leiðum á láglendi. Hálka er á Þverárfjalli og hálka og skafrenningur  frá Hofsós að Ketilás. Þæfingsfærð og  skafrenningur er á Siglufjarðarvegi og á Öxnadalsheiði.

Á Norðurlandi eystra er snjóþekja og skafrenningur í Eyjarfirði og í kringum Akureyri. Hálka og skafrenningur er á Grenivíkurvegi. Snjóþekja og skafrenningur er á Víkurskarði en  þæfingsfærð í Ljósavatnsskarði. Hálka eða snjóþekja og éljagangur er á flestum öðrum leiðum og verið að hreinsa.

Á Austurlandi er þæfingsfærð á Háreksstaðarleið en þungfært og skafrenningur á  Fjarðarheiði. Ófært er á Vatnsskarði eystra.  Snjóþekja er á Jökuldal og hálka og skafrenningur á Fagradal.  Hálka og snjókoma á Oddsarði. Hálkublettir er með ströndinni frá Reyðarfirði að Djúpavogi en hálka eftir það að Höfn.Snjóþekja er frá Höfn að Kvískerjum en auður vegur að Kirkjubæjarkalaustri. Óveður er í Öræfum.

Á Suðurlandi eru flestar leiðir greiðfærar þó er þæfingsfærð og stórhríð á Reynisfjalli og á Mýrdalssandi. Óveður er undir Eyjafjöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert