Fátt vitað um aðkomu Schütz

Fátt er vitað aðkomu Karls Schütz að Guðmundar- og Geirfinnsmáli. …
Fátt er vitað aðkomu Karls Schütz að Guðmundar- og Geirfinnsmáli. Talið er líklegast að sendiherra Íslands í Berlín hafi verið milligöngumaður um komu hans hingað til lands. mbl.is/RAX

Ekki liggja fyrir nein skrifleg gögn um það með hvaða hætti þýski lögreglumaðurinn Karl Schütz var fenginn að rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmála á sínum tíma, en hann starfaði að rannsókn málsins frá 1976 til 1977.  

Eina skriflega skjalið sem fannst í fórum Stjórnarráðsins var frá því eftir að hann var kominn hingað til starfa. Þetta kom fram á málþingi sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík í dag um Guðmundar- og Geirfinnsmál og trúverðugleika játninga.

Líklega munnleg beiðni

Því var haldið fram að líkast til hefði verið um munnlega beiðni eða samkomulag að ræða og sendiherra Íslands í Þýskalandi, Pétur Eggerz verið milligöngumaður um að fá hann hingað til lands.

Þá kom það fram í umræðum að svo hefði virst sem almenningur hefði haft blinda trú á Schütz við rannsókn málsins. Fram kom að af þeim gögnum sem til væru hefði Schütz allan tímann trúað á sekt sakborninga og hans störf fyrst og fremst miðað að því að ná fram játningum. Hann hefði meðal annars talið að verulegt ósamræmi í framburði sakborninga hefði verið þeirra leið til að trufla framgang málsins. Það er athygli vert í því ljósi að sakborningar voru í einangrun og höfðu mjög takmörkuð samskipti eða tækifæri til að skipuleggja slíkt.

Ekki virðist hafa verið tekið með í reikninginn að svo misvísandi framburður sem raun beri vitni kunni að hafa stafað af því að sakborningar hafi hreinlega ekkert vitað um málin. Þá tók Schütz ekkert mark á því þegar sakborningar reyndu að draga framburði sína til baka til að lýsa yfir sakleysi sínu. En allir sakborningar lýstu í upphafi yfir sakleysi.

Töldu ófært að dæma menn seka á grundvelli gagnanna

Lögmenn sem sátu ráðstefnuna sem gestir lýstu því yfir að þeir teldu ófært að dómstólar gætu á grundvelli fyrirliggjandi gagna í málinu dæmt menn seka. Einn þeirra var Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem sagði að eitt grundarvallaratriði í þessu samhengi væri að ekki væri sannað að neitt brot hefði verið framið.

Aldrei vafi að engar sannanir um brot lágu fyrir

Hann sagði að það væri sérkennilegt að af fjölda sakborninga í málinu hefði enginn getað vísað á lík, hvorki Guðmundar né Geirfinns. Jón Steinar sagði að í sínum huga hefði aldrei verið vafi á því að það hefðu aldrei verið færðar sannanir fyrir því að brotin hefðu verið framin, út frá þessum atriðum.

Hann sagði mikinn samfélagslegan þrýsting hafa verið um sakfellingu og velti upp þeirri spurningu hvort það gæti hafa verið að dómstólarnir hefðu viljað taka það hlutverk að sér að ljúka málinu á einhvern þann hátt að það félli þjóðinni í geð.

Aðrir gestir á málþinginu spurðu um ábyrgð dómara í þessu máli en engin svör komu þó fram við því önnur en þau að starfshópurinn hefði ekki skoðað ábyrgð rannsakenda, dómara eða annarra sem að málinu komu heldur fyrst og fremst þau gögn sem lágu fyrir.

Boðaði ritgerð í næstu viku um dómstóla

Jón Steinar boðaði að í næstu viku kæmi fram ritgerð um hvað betur mætti fara varðandi dómstóla hérlendis.

Fram kom í erindi að eftir að tekin var upp sú regla að hljóðrita yfirheyrslur og skýrslutökur hérlendis hefðu vettvangsferðir aukist en þar var hægt að eiga óformlegri samskipti við hina grunuðu. Þá kom einnig fram að það vekti sérstaka athygli hversu mikil óformleg samskipti voru viðhöfð við sakborninga í þessu máli og í því samhengi voru nefndar mjög tíðar ferðir inn í klefa þeirra.

Þá var vakin á því athygli að í geðskýrslum sem gerðar voru við rannsókn málsins hefði verið fjallað um sakborninga eins og þeir væru í raun sekir, en á þeim tíma voru málin enn á rannsóknarstigi og enginn dómur fallinn.

Frá blaðamannafundi um niðurstöður starfshóps í Guðmundar- og Geirfinnsmáli.
Frá blaðamannafundi um niðurstöður starfshóps í Guðmundar- og Geirfinnsmáli. mbl.is/Rósa Braga
Málþing um áreiðanleika játninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var haldið …
Málþing um áreiðanleika játninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var haldið í HR í dag. mbl.is/Rósa Braga
Sævar Ciesielski reyndi tvívegis að fá Guðmundar- og Geirfinnsmál endurupptekin …
Sævar Ciesielski reyndi tvívegis að fá Guðmundar- og Geirfinnsmál endurupptekin fyrir Hæstarétti. Morgunblaðið/Ásdís
Frá málflutningi í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Frá málflutningi í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
mbl.is