Tíundu hverri nauðgað rænulausri

Mjög stór hluti nauðgana hér landi á sér stað eftir …
Mjög stór hluti nauðgana hér landi á sér stað eftir að áfengis hefur verið neytt. AFP

Mjög stór hluti nauðgana hér landi á sér stað eftir að áfengis hefur verið neytt. Í um 50 nauðgunarmálum á 2 ára tímabili var þolandinn rænulaus eða lítill og gat þar af leiðandi ekki spornað við verknaðinum. 62% þolenda og 40% gerenda höfðu drukkið áfengi í þeim 189 málum sem lögregluembættin á Íslandi höfðu til rannsóknar á árunum 2008 og 2009.

Í tíunda hverju máli voru brotaþolar rænulausir þegar brotið var gegn þeim. Upplýsingarnar um áfengisneyslu gerenda lágu ekki alltaf fyrir en af þeim málum þar sem upplýsingar um áfengisneyslu gerenda lágu fyrir voru 55% undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er þeir frömdu brot sín. Í aðeins 11% tilvika var hvorugur aðili undir áhrifum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur nýrri rannsókn á einkennum og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009. Rannsóknin var unnin af Hildi Fjólu Antonsdóttur, mann- og kynjafræðingi og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, lögfræðingi, með aðstöð Maríönnu Þórðardóttur meistaranema í lýðheilsuvísindum. Samantekt um helstu niðurstöður rannsóknarinnar var gefin út í dag en hún var unnin með styrk og stuðningi innanríkisráðuneytisins sem og styrkt af Norræna sakfræðiráðinu. Samantekt þessi byggir á fyrsta áfanga umfangsmikillar rannsóknar á meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu.

Gerendur misnota sér ölvunarástand stúlkna

Í rannsókninni var áfengisneysla yngstu brotaþolanna sérstaklega skoðuð. Í ljós kom að í 10 málum af 30 þar sem þolendur voru 14 ára eða yngri höfðu þeir drukkið áfengi eða neytt annarra vímuefna.

Af 46 stúlkum á aldursbilinu 15-17 ára voru 17 þeirra undir mjög miklum áfengisáhrifum og fjórar rænulausar þegar gerendur brutu gegn þeim. Í 12 málum voru brotaþolar ekki undir áhrifum. Aðeins 7 gerendur voru á þessu aldursbili í gögnum lögreglunnar. Fram kom að fjórir þeirra voru ekki undir áhrifum.

Þegar öll málin eru skoðuð kemur í ljós að 50 þolendur sögðust hafa verið rænulausir eða rænulitlir er brotið var gegn þeim. Það er niðurstaða rannsakenda að í um fjórðungi málanna hafi gerendur misnotað sér algjört rænuleysi brotaþola eða að þolendur voru undir of miklum áhrifum til að geta spornað við verknaðinum. Í þeim tilvikum var algengt að brotaþolar lýstu því hjá lögreglu að þeir myndu lítið eftir atvikum eða að þeir hefðu vaknað upp við að verið væri að brjóta gegn þeim.

Ungar og átta sig ekki á aðstæðum

Þá er það niðurstaða rannsóknarinnar að í um fimmtungi málanna hafi brotið einkennst af aðstöðumun aðila. Nokkuð var um að þolendurnir væru ungar stúlkur sem áttuðu sig illa á því sem gerst hafði. Einnig var algengt að gerandi beitti aldurs-, afls og þroskamun og þá væru dæmi um að þeir keyrðu þær á afvikinn stað þar sem þær fundu til öryggisleysis. Í sex málum voru brotaþolar börn að aldri eða á aldrinum 3-12 ára og lýstu því að þær hefðu ekki fyllilega skilið þýðingu verknaðarins fyrr en löngu síðar. Meirihluti kynferðisbrota gegn börnum eru rannsökuð undir öðrum ákvæðum hegningarlaga og voru því ekki til skoðunar í þessari rannsókn.

Í mörgum málanna beittu gerendur líkamlegu afli til að ná fram vilja sínum. Í um fjórðungi málanna misnotuðu þeir sér rænuleysi þolandans sem gat þá ekki spornað gegn verknaðinum.

Frusu og grétu

En hvernig brugðust þolendurnir við ofbeldinu?

Viðbrögð þeirra einkenndust oft af því að þeir mótmæltu eða neituðu (29%). Þegar gerandi virti það ekki einkenndust viðbrögð þolandans af hræðslu og/eða áfalli, hann grét eða fraus og sýndi í kjölfarið enga mótspyrnu. Í hluta málanna streittust brotaþolar á móti (21%) og í nokkrum þeirra viðhöfðu þeir líkamlega mótspyrnu (16%).

 Í um helmingi tilvika gengust þolendur í nauðgunarmálunum undir læknisskoðun. Að sama skapi voru sjáanlegir áverkar í um helmingi tilvika eða 56 málum. Algengustu líkamlegu áverkarnir voru yfirborðsáverkar en alvarlegir líkamlegir áverkar eins og skurðir, blæðingar og beinbrot voru afar sjaldgæfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert