Laus úr gæsluvarðhaldi

mbl.is/Eggert

Rannsókn á hópnauðgun í Breiðholti er að ljúka hjá lögreglunni og verður málið sent fljótlega til ríkissaksóknara, að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar. 

Fimm pilt­ar á aldr­in­um 17 til 19 ára eru grunaðir um að hafa nauðgað sex­tán ára stúlku aðfaranótt sunnu­dags­ins 4. maí s.l. Pilt­arn­ir hafa all­ir geng­ist við því að hafa haft sam­far­ir við stúlk­una, en segj­ast hafa talið að hún væri því samþykk. Pilt­un­um ber þó ekki sam­an um at­b­urðinn og at­b­urðarás hon­um tengda.

Mynd­bands­upp­taka, sem tek­in var á síma eins pilt­anna fimm sem eru kærðir, styður framb­urð stúlk­unn­ar, að mati lög­reglu. 

Rannsókn á árás á Spot langt komin

Ekki var óskað eftir framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir manni sem er grunaður um að hafa ráðist á annan mann á skemmtistaðnum Spot í síðustu viku. Gæsluvarðhald yfir honum rann út síðdegis í gær en að sögn Friðriks Smára miðar rannsókn vel og er hún langt komin. Auglýst var eftir vitnum að árásinni og hafa nokkur gefið sig fram.

Árásarmaður­inn er grunaður um að hafa slegið, skallað og hrint öðrum manni sem hlaut lífs­hættu­lega áverka á skemmti­staðnum Spot í Kópa­vogi aðfararnótt uppstigningadags vegna manns sem lá meðvit­und­ar­laus á gólfi staðarins. 

Á rönt­gen­mynd­um mátti sjá blæðingu inn á heila á tveim­ur stöðum hjá mann­in­um og einnig höfuðkúpu­brot. Var ástand manns­ins talið al­var­legt og var hann í fram­hald­inu flutt­ur á gjör­gæslu­deild til frek­ari aðhlynn­ing­ar. 

Árásarmál enn í rannsókn

Enn er unnið að rann­sókn á nauðgun á ungri konu en hún bankaði upp á í húsi við Lang­holts­veg und­ir morg­un á laug­ar­degi. Eng­inn ligg­ur und­ir grun, að sögn Friðriks Smára en rannsókn er ekki lokið og segist hann ekki geta tjáð sig frekar um málið að svo stöddu.

Ung kona leitaði á neyðar­mót­töku Land­spít­al­ans í Foss­vogi kl. 5 að morgni þann 17. maí sl, en grun­ur leik­ur á að henni hafi verið nauðgað. Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu aug­lýsti þann sama dag eft­ir vitn­um í tengsl­um við rann­sókn­ina. 

Líkt og kom fram á mbl.is í gær er einn maður í gæsluvarðhaldi vegna árásar á mann í Selbrekku í Kópavogi. Friðrik Smári segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi og getur ekki upplýst frekar um hana að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert