Lýður dæmdur til að greiða tvær milljónir í sekt

Lýður Guðmundsson og Bjarnfreður Ólafsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Lýður Guðmundsson og Bjarnfreður Ólafsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Lýð Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformann Exista, til að greiða tvær milljónir kr. í sekt fyrir brot á hlutafélagalögum en Bjarnfreður Ólafsson lögmaður var sýknaður í sama máli, sem embætti sérstaks saksóknara höfðaði á hendur þeim sl. haust.

Greiði Lýður ekki sektina innan fjögurra vikna skal hann sæta fangelsi í 60 daga.

Lýður var ákærður fyrir að hafa 8. desember 2008, sem stjórnarmaður einkahlutafélagsins BBR, brotið vísvitandi gegn ákvæðum hlutafélagalaga um greiðslu hlutafjár með því að greiða hlutafélaginu Exista minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta í Exista hf., að nafnverði 50 milljarða króna. BBR ehf. keypti hlutina sama dag og greiddi fyrir með 1 milljarði hluta í einkahlutafélaginu Kvakki sem metnir voru á 1 milljarð króna, en á sama tíma var Lýður starfandi stjórnarformaður Exista hf.

BBR ehf., sem þannig eignaðist 50 milljarða hluta í Exista hf., var í eigu einkahlutafélagsins Korks. Lýður var stjórnarmaður Korks ehf. auk þess sem hann var eigandi félagsins ásamt bróður sínum, Ágústi Guðmundssyni.

Þá voru þeir Lýður og Bjarnfreður ákærðir fyrir að skýra vísvitandi rangt og villandi frá hækkun á hlutafé Exista hf. með því að Bjarnfreður sendi 8. desember 2008, að undirlagi ákærða Lýðs, tilkynningu til hlutafélagaskrár, þar sem ranglega kom fram að hækkun á hlutafé Exista hf., að nafnverði 50 milljarða króna, hefði að fullu verið greidd til félagsins þótt einungis hefði verið greitt fyrir hlutaféð með 1 milljarði hluta í Kvakki ehf. að verðmæti 1 milljarðs króna.

Héraðsdómur sakfellir Lýð fyrir það sem honum er gefið að sök í fyrri kafla ákærunnar. Fram kemur að Lýður hafi verið stjórnarmaður í BBR ehf. og undirritað kaupsamninginn fyrir þess hönd. Á honum hvíldu skyldur stjórnarmanns sbr. lög um einkahlutafélög, og auk þess hefur hann komið að rekstri fleiri félaga eins og hann bar sjálfur. Honum hlaut því að vera ljóst að samkvæmt lögum um hlutafélög megi greiðsla hlutar ekki nema minna en nafnverði hans. Með því að greiða þannig nefnda fjárhæð fyrir hlutina í Exista hf. braut ákærði gegn þessu ákvæði, enda var honum óheimilt, sem stjórnarmanni í BBR ehf., að greiða minna en nafnverð fyrir þá.

Í síðari kafla ákærunnar eru þeim Lýði og Bjarnfreði báðum gefið að sök að hafa skýrt vísvitandi rangt og villandi frá framangreindri hækkun á hlutafé í Exista hf. með því að Bjarnfreður sendi, að undirlagi ákærða Lýðs, tilkynningu til hlutafélagaskrár. Báðir neituðu sök.

Lýður bar að hann hefði fyrst vitað af tilkynningunni er hann var yfirheyrður af sérstökum saksóknara í júní 2012. Bjarnfreður kvað tilkynninguna ekki hafa verið senda að undirlagi meðákærða og hefðu þeir ekki verið í samskiptum vegna hennar. Engin vitni hafa borið um aðkomu ákærða Lýðs að því að semja eða senda nefnda tilkynningu og engin önnur gögn styðja við fullyrðingu ákæruvaldsins um að tilkynningin hafi verið send að undirlagi ákærða. Samkvæmt þessu er ósannað að Lýður hafi átt þátt í að semja eða senda tilkynninguna eins og honum er gefið að sök. Þegar af þeirri ástæðu verður hann sýknaður af síðari lið ákærunnar, segir í dómi héraðsdóms.

Lýði er gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, 10.900.000 krónur, að hálfu en að hálfu skulu þau greidd úr ríkissjóði.

Málsvarnarlaun verjanda Bjarnfreðar, samtals þrjár milljónir kr. skulu greidd úr ríkissjóði.

mbl.is

Bloggað um fréttina