Matthías Imsland aðstoðar Eygló

Matthías Páll Imsland.
Matthías Páll Imsland.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ráðið Matthías Pál Imsland aðstoðarmann sinn í velferðarráðuneytinu.

Matthías er 39 ára gamall, fæddur 27. janúar 1974. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni, BA prófi frá Háskóla Íslands í stjórnmálafræði og síðar MS prófi frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Þá hefur hann stundað nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og stjórnunarnámi við North Park University í Chicago í Bandaríkjunum.

Matthías var kosningastjóri Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2013. Áður vann hann sem ráðgjafi fyrir fyrirtæki í Suður-Ameríku og Skandinavíu. Matthías var um tíma framkvæmdastjóri rekstrarsviðs flugfélagsins WOW-air og fyrir stofnun þess var hann forstjóri Iceland Express. Matthías starfaði um skeið í opinberri stjórnsýslu, fyrst sem sviðsstjóri fræðslu-, félags- og menningarsviðs á Blönduósi og einnig í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Að loknu námi starfaði hann sem rekstrarstjóri þjónustudeildar Símans.

Á pólitískum vettvangi hefur Matthísas verið formaður Félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík, formaður kjördæmasambandsins í Reykjavík, í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna, í miðstjórn Framsóknarflokksins og í landsstjórn flokksins.

Matthías Páll Imsland er í sambúð með Sunnevu Torp. Þau eiga fimm börn á aldrinum fjögurra til 12 ára; þrjá drengi og tvær stúlkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert