Ísland getur aukið samstarf við ríki Barentsráðsins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt öðrum ráðherrum á leiðtogafundi Barentsráðsins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt öðrum ráðherrum á leiðtogafundi Barentsráðsins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi Barentsráðsins sem lauk í dag. Í erindi hans á fundinum ræddi Sigmundur Davíð meðal annars mikilvægi samstarfs ríkja Barentsráðsins í ljósi sívaxandi áhuga á norð-vestur siglingaleiðinni og aukinnar áherslu á umhverfismál og sjálfbærni. 

Fundurinn markar 20 ára samstarf ríkja Barentsráðsins og fór fram í Kirkenes í Noregi, sem gegnir nú formennsku í Barentsráðinu. Ísland hefur verið aðili að ráðinu frá upphafi og snýr samstarfið að mikilvægum þáttum sem varða mannauð, sjálfbærni, umhverfi og auðlindir á svæðinu, að því er segir í tilkynningu.

Í yfirlýsingu leiðtogafundarins koma meðal annars fram áherslur sem varða norð-austur siglingaleiðina, endurnýjanlega orkugjafa og mikilvægi þróunar á svæðinu, bæði hvað varðar samgöngur, innviði og mannauð. Aukið samstarf ríkja Barentsráðsins hefur skapað aukið traust og samráð, sem er mikilvægt fyrir framhaldandi þróun. Yfirlýsingin er meðfylgjandi.

Auk Jens Stoltenbergs forsætisráðherra Noregs, tóku Jyrki Katainen, forsætisráðherra Finnlands, og Dmitrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, þátt í leiðtogafundinum, svo og utanríkisráðherrar Svíþjóðar og Danmerkur og varaforsetar leiðtogaráðs Evrópusambandsins.  Einnig tóku þátt fulltrúar svæðissamstarfs Barentssvæðisins, frumbyggja og samtaka ungs fólks á svæðinu.

Í erindi forsætisráðherra á fundinum ræddi hann meðal annars mikilvægi samstarfs ríkja Barentsráðsins í ljósi sívaxandi áhuga á norð-vestur siglingaleiðinni og aukinnar áherslu á umhverfismál og sjálfbærni. Þátttaka frumbyggja í störfum ráðsins væri verðmæt og þar lægi menningararfur sem ekki mætti gleymast í samfélagi ríkjanna.

„Það var að mínu mati áhugavert hvað er mikill samhljómur á milli okkar ríkja og aðila að Barentsráðinu um hvaða tækifæri og hvaða áskoranir felast í sívaxandi áhuga og ásókn í þetta svæði. Við Íslendingar getum stóraukið okkar samstarf, til dæmis við Finna, Norðmenn og Rússa um lausnir á þessum vettvangi,“ sagði forsætisráðherra eftir fundinn.  

„Ég nefndi sérstaklega í umræðum sem fóru fram á fundinum þann áhuga sem Ísland hefur á að vera lykilaðili varðandi alþjóðlegt björgunar- og leitarsamstarf á þessum vettvangi og við munum halda áfram að vinna að þeim málum á þessum vettvangi, en einnig í öðru fjölþjóðasamstarfi.“
 
Forsætisráðherra átti einnig samtal við Björn Gunnarsson, framkvæmdastjóra Miðstöðvar um norðurslóðaflutninga (Center for High North Logistics), í höfuðstöðvum fastaskrifstofu Barentsráðsins. Miðstöðin safnar og miðlar upplýsingum sem nýtast við siglingaleiðir og flutninga á þessu svæði.

Í gær átti forsætisráðherra tvíhliða fundi með forsætisráðherrum Finnlands, Rússlands og Noregs og eru upplýsingar um þá fundi að finna á vef forsætisráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert