Erfitt að falsa 5.000 kallinn

Hann hefur verið hluti af lífi Íslendinga í rúman aldarfjórðung, flest okkar hafa handfjatlað hann, sumir oftar en aðrir og líklega eru margir á þeirri skoðun að gaman væri að eiga marga eins og hann. Þetta er sjálfur fimmþúsundkallinn, eða kellingin eins og sumir vilja kalla gripinn því að hann er eini íslenski seðillinn sem kona hefur prýtt.

Í þessi 27 ár hefur 5.000 króna seðillinn verið verðmestur íslenskra seðla, en nú er annar tvöfalt verðmeiri væntanlegur síðar í ár, tíu þúsund kallinn.

5.000 króna seðillinn var tekinn í notkun þriðjudaginn 10. júní 1986 og greindi Morgunblaðið ítarlega frá því. Síðan þá hefur hann tekið nokkrum breytingum, aðallega hvað varðar öryggisþætti, en  nú eru 11 slíkir á 5.000 kallinum, t.d. tvö vatnsmerki, tveir öryggisþræðir og málmþynna. Þá er á seðlinum reitur sem á er letrað 5000. Það sést ekki með beru auga, en kemur í ljós þegar seðillinn er borinn undir útfjólublátt ljós.

En þetta eru ekki einu breytingarnar sem gerðar hafa verið á 5.000 kallinum, því þegar skipt er um seðlabankastjóra, sem gerist af og til, þá þarf að skipta út undirskriftum á seðlunum. 

Anton Holt, safnvörður Myntsafns Seðlabanka Íslands, segir 5.000 króna seðilinn nokkuð nútímalegri nú en hann var er hann kom fyrst fram á sjónarsviðið. Allir öryggisþættirnir geri það að verkum að afar erfitt sé að falsa seðilinn.

mbl.is