„Þetta eru duttlungafull fyrirbæri“

Þrátt fyrir að langt sé liðið á maí og sumardagurinn fyrsti löngu liðinn þá eru lítil merki um sumarblíðu víða um land. En þetta er ekkert einsdæmi, maí hefur áður verið kaldur eins og sjá má þegar gömlum Morgunblöðum er flett.

Til dæmis var vorið 1977 eitt það kaldasta í manna minnum, einkum á norðausturlandi. Í Morgunblaðinu þann 18. maí það árið segir að fé sé enn haft inni vegna kulda og að jörð hafi verið alhvít á Suðurlandi og nokkrum dögum síðar var Mývatn ennþá ísi lagt.

Ekki var ástandið miklu skárra árið 1943, þegar mikill snjór var á Öxnadalsheiðinni og í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þann 15. maí 1949 segir frá hríð víða um land.

Mikið hret gerði í byrjun maí árið 1929 og þá greindi Morgunblaðið frá hríðarveðri á Akureyri.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir veðurfarið að undanförnu ekki vera einsdæmi og í rauninni þurfi ekki að fara lengra aftur en til ársins 1995. „Þá var mjög snjóþungt, sérstaklega á Norðurlandi,“ segir Einar. „1989 var líka mikill snjór á landinu og það tók langan tíma að ganga á hann og 1979 var frægt kuldavor með hafísum og miklum kulda fram eftir öllu.“

Einar segir að hret séu duttlungafull fyrirbæri sem geti komið bæði úr ýmsum áttum og aldrei sé hægt að fullyrða neitt um þau. „Þau eru tilviljunarkennd og koma ekkert frekar þegar kalt hefur verið í veðri .“

Hann segir hretin að sumu leyti vera séríslensk fyrirbæri. „Þegar sólin tekur að hækka á lofti, þá bræðir hún af sér klaka og snjó. En norðurhjarinn og sérstaklega nálægð okkar við Grænland og hafísinn norður frá gerir það að verkum að þó sólin sé komin hátt á loft þá nær hún ekki að hita upp þessi svæði, heldur endurkastar snjórinn sólargeislunum og það líður óratími þar til þarna tekur að hlýna. Það þarf ekkert annað en óhagstæða vinda eða strauma í loftunum til að veita þessu kalda lofti til okkar. Og þá fáum við hret.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert