Svarthöfði í Reykjavík og Anakinn í Hafnarfirði

Svarthöfði.
Svarthöfði.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur tók á fundi sínum í gær fyrir tillögu þess efnis að breyta nafninu á Bíldshöfða í Svarthöfða. Tillagan var efst í flokknum skipulagsmál á samráðsvefnum Betri Reykjavík. Samþykkt var á fundinum að vísa málinu til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Raunar hljóðar tillagan um að breyta nafninu á einhverjum höfðanum, til dæmis Bíldshöfða, í Svarthöfða. Hún var sett inn á vefinn Betri Reykjavík fyrir níu mánuðum síðan og hafa vinsældir hennar verið vaxandi. Með tillögunni fylgdi eftirfarandi texti frá hugmyndasmiðnum: „Það er ótrúlega sorglegt að borgaryfirvöld hafi ekki ennþá svarað kalli fólksins um að gefa einhverri götu í höfðunum nafnið Svarthöfði. Það liggur svo beint við.“

Nokkrar umræður hafa skapast um tillöguna og í þeim meðal annars bent á að Svarthöfði sé til sem örnefni, til dæmis sé Svarthöfði við Vonarskarð.

Annar sem kveður sér hljóðs nefnir að ef tillagan verði samþykkt bjóði það upp á möguleika á að para saman götur milli sveitarfélaga og koma þannig á vinagötusamböndum. „Anakinn í Hafnarfirði gæti tengst Svarthöfða órofaböndum.“ Ekki er þó vitað hvort einhver hafi stungið upp á því við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að breyta einhverri kinninni, til dæmis Köldukinn, í Anakinn.

Þá er einnig stungið upp á fleiri breytingum, til dæmis að einu fellanna í fellahverfi verði breytt í Falafell. Ekki er þó að sjá að sú tillaga hafi fengið stuðning annarra.

Jón Gnarr borgarstjóri leikur Obi Wan Kenobi úr Star Wars.
Jón Gnarr borgarstjóri leikur Obi Wan Kenobi úr Star Wars. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina