Fyrirtæki velja aðra mynt en krónu

Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, á Alþingi.
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

1% íslenskra fyrirtækja sem eru með um 30% allrar veltu fyrirtækja á Íslandi hafa valið erlenda mynt. Eftir situr almenningur sem þarf að glíma við gengisfellingar. Þetta sagði Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag.

Vilhjálmur sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri stór flokkur og þar væru menn ekki allir sömu skoðunar. Hann tók fram að hann væri í minnihluta í Evrópumálum í sínum flokki.

Vilhjálmur sagðist ekki vera sáttur við þá leið sem ríkisstjórnin hefði valið í Evrópumálum og sagðist ekki sjá að ákvarðanir hennar í Evrópumálum væru í samræmi við þingræðið eins og það hefði verið skilgreint, m.a. hjá Gunnar G. Schram prófessor í lögum.

„Það er hægt að kjósa um mynt. Um 1% íslenskra fyrirtækja hafa kosið sér aðra mynt en íslenska krónu. 300 íslensk fyrirtæki af 30.000 hafa valið sér aðra mynt. Samkvæmt lauslegri athugun minni er þetta ekki 1% af veltu íslenskra fyrirtæki heldur er þetta 30% af veltu íslenskra fyrirtækja. Þetta eru fyrst og fremst sjávarútvegsfyrirtæki, orkufyrirtæki, flutningafyrirtæki og fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum þar sem starfrækslumyntin er talin tekjuhluti.

Ég tel að ýmislegt gerist hægt og bítandi eins og íslensk fyrirtæki velji að nota erlenda mynt, en við alþýðan sitjum eftir með íslenska krónu sem verður notuð lausbeisluð til að fella gengið eftir þörfum. Mér geðjast ekki að því að hér verði láglaunaland með gengisfellingum og að árangri í ferðaþjónustu verði þakkað lágu gengi,“ sagði Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert