Kastaði glasi í mann á bar

Bjórglas.
Bjórglas. AFP

Hæstiréttur hefur staðfest fimm mánaða fangelsi yfir karlmanni á þrítugsaldri sem sakfelldur var fyrir að kasta bjórglasi í annan mann á öldurhúsi í miðborg Reykjavíkur árið 2010. Maðurinn var með óflekkað sakarvottorð og rannsókn málsins dróst og þótti því rétt að skilorðsbinda refsinguna.

Glasið brotnaði með þeim afleiðingum að maðurinn sem fékk það í andliðið hlaut skurð á vinstri augabrún, vinstra megin á nefi og efri vör, sár á vinstri kinn og á hvirfli. Var árásarmanninum gert að greiða fórnarlambinu 300 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn játaði að hafa kastað bjórglasinu en sagði að um ósjálfráð varnarviðbrögð vegna yfirvofandi og yfirstandandi árásar hefði verið að ræða af hans hálfu. Ásetningur til líkamsárásar hafi því ekki verið fyrir hendi og í öllu falli verði að meta háttsemi hans sem neyðarvörn.

Við rannsókn málsins hjá lögreglu kom fram að mennirnir voru í hópi tónleikagesta á veitingastaðnum Dillon þá er umrætt atvik átti sér stað.  Fórnarlambið greindi frá því við skýrslutöku að hann hefði af tilteknum ástæðum reiðst árásarmanninum, sem hann þekkti, og í þeim ham tekið stól og hent honum í hann. Hann hafi síðan gengið í átt að honum sem þá hafi kastað bjórglasi í höfuð hans. Er þetta í samræmi við framburð þess sem kastaði bjórglasinu.

Varð það niðurstaða dómsins að sannað væri að maðurinn hefði gerst sekur um þá háttsemi sem saksókn á hendur honum tók til. Hann var því sakfelldur fyrir hættulega líkamsárás.

mbl.is