Lömbin stóðu ofan á dauðum kindum

Þessi mynd var tekin á Miðfjarðarheiði í Norður-Þingeyjarsýslu í gær.
Þessi mynd var tekin á Miðfjarðarheiði í Norður-Þingeyjarsýslu í gær. Ljósmynd/Reimar Sigurjónsson

Bændur í Jökuldal og Fljótsdal hafa verið að finna kindur sem fennt hafa í kaf og drepist í óveðrinu sem gekk yfir í byrjun vikunnar. Ekki er búið að finna margar dauðar og bændur segja erfitt að átta sig á hversu mikið hafi drepist.

Eyjólfur Ingvason, bóndi á Melum í Fljótsdal, segir að fjórar ær hafi fundist dauðar í gær í svokölluðum Rana milli Jökulsár á Dal og Eyvindaár. „Þær voru í bleytu og hafa kannski orðið undir í troðningi. Lömbin stóðu ofan á þeim, en þau voru lifandi.

Við fundum síðan 14 kindur lifandi sem við grófum úr fönn. Það er erfitt að átta sig á hversu mikið hefur fennt í kaf. Það gæti verið meira lifandi. Sauðfé getur lifað ótrúlega lengi eins og sást í fyrra eftir óveðrið sem gekk yfir Norðurland.“

10 eru við samalmennsku í Rananum. Eyjólfur segir aðstæður góðar, sól og blíða. Svæðið var smalað að hluta á laugardaginn, áður en óveðrið skall á. Hann sagði að klárað verði að smala svæðið á morgun. Framhaldið ráðist svo af veðri.

„Þetta hressir ekki sálartetrið“

Bændur á Jökuldal hafa einnig fundið dauðar kindur. Vilhjálmur Snædal, bóndi Skjöldólfsstöðum, sagðist ekki hafa yfirlit yfir hvað væri búið að finna mikið.

„Þetta er mun verra en ég reiknaði með. Snjórinn er svo mikill. Skaflarnir eru mjög stórir að það getur verið fjöldi á kafi án þess að maður sjái það. Fé getur leynst í grafningjum og lækjum,“ sagði Vilhjálmur.

„Við vorum áðan að finna tvær fastar í fönn og eina dauða. Það stóðu bara hausarnir upp úr. Við erum á stórum jeppa og tókum þær bara inn í bílinn. Þær geta varla gengið og það er ekki gaman að horfa upp á þetta. Þetta hressir ekki sálartetrið að horfa upp á þetta.“

Vilhjálmur sagði að fé væri flutt í kerrum sem eru aftan í snjósleðum.

Sæmileg veðurspá er á Austurlandi næstu daga. Mjög kalt var hins vegar í Jökuldal í nótt og fór frost á Brú á Jökuldal niður í 6,5 stig.

Þessi mynd var tekin af í Jökuldal í gær. Þarna …
Þessi mynd var tekin af í Jökuldal í gær. Þarna sést snjólínan vel af Arnórstaðamúlanum yfir utanverðan Jökuldal. Til vinstri sér í Skjöldólfsstaða- og Hjarðarhagaheiðar þar sem óttast er að orðið hafi fjárskaðar. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert