Dularfullur maður við ormatínslu

Ánamaðkur.
Ánamaðkur. Af vef Wikipedia

Fyrir skemmstu barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um miðja nótt, en íbúi einn í hæglátu íbúðarhverfi sagðist hafa séð skuggalegan mann fyrir utan stofugluggann hjá sér með hettu yfir hausnum og vasaljós í hendinni.

„Eins og gefur að skilja spruttu okkar menn af stað, en grunur lék á að þarna færi maður sem hefði illt í hyggju og mátti því engan tíma missa. Þegar okkar fólk bar að garði reyndust þó vera eðlilegar útskýringar á þessu öllu,“ segir á facebooksíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þarna var um að ræða áhugasaman veiðimann sem hafði nýtt náttmyrkrið til að tína sér orma fyrir fyrirhugaða veiðiferð. Var manninum því óskað velfarnaðar í komandi veiðiferð en engar frekari fréttir hafa borist af aflabrögðum, veiðimanni né ormunum.


mbl.is