Æðarbóndi, hóteleigandi og selabóndi

Í Flatey.
Í Flatey. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Ég ólst upp í Skáleyjum en get rakið ættir mínar langt aftur í Flatey. Hér hef ég búið frá árinu 1965. Þá var föst búseta í fjórum eyjum hérna, Flatey, Hvallátrum, Svefneyjum og Skáleyjum. Nú erum við á milli 5-6 sem búum hér í Flatey.“

Þetta segir Hafsteinn Guðmundsson, íbúi í Flatey á Breiðafirði. Þar býr hann í Læknishúsinu svonefnda og rekur þar gistiheimili yfir sumarið.

„Ja, hvað ætli eigi að titla mig; það fer svolítið eftir því hvað mönnum dettur í hug. En ég er æðarbóndi og selabóndi, stunda það hvort tveggja. Ég ólst upp við selveiðar í Skáleyjum. Selurinn er herramannsmatur og núna er hann aðallega veiddur vegna kjötsins,“ segir Hafsteinn í viðtali sem við hann var tekið á hringferð Morgunblaðsins um landið í tilefni af 100 ára afmæli þess.

mbl.is