Filippseyingar bjóða til hlaðborðs

Móðir þurrkar andlit dóttur sinnar þar sem þær bíða þess …
Móðir þurrkar andlit dóttur sinnar þar sem þær bíða þess að verða fluttar burt af hamfarasvæðinu í Tacloban á Filippseyjum. AFP

Um 1500 Filippseyingar eru búsettir á Íslandi og meirihluti þeirra, eða um 70%, á uppruna á hamfarasvæðinu þar sem fellibylurinn gekk á land. Enn eru margir sem ekki hafa heyrt frá fjölskyldum sínum.

Um helgina ætla Filippseyingar að standa fyrir hádegisverðarhlaðborði til styrkar hjálparstarfinu á Filippseyjum og eins verður Filipseysk-íslenska félagið með sölubás í Kolaportinu sem allur hagnaður af mun renna til hjálparstarfs.

Bíða þess að heyra frá fjölskyldum sínum

„Það er mikil angist meðal fólks hér,“ segir Margarita Hamatsu, starfsmaður ferðaþjónustunnar Iceland Travel. Margarita stendur baki skipulagningu filipseysks hlaðborðs á sunnudaginn.

Hún bendir á að hamfarasvæðið sé mjög stórt og upplýsingar sem berist séu af skornum skammti. Sameinuðu þjóðirnar óttast að í borginni Tacloban, sem varð einna verst úti, séu hátt í 10.000 látnir en forseti Filippseyja telur að það sé ofmat. Í öllu falli er ljóst að hundruð þúsunda manna eiga um sárt að binda, hafa misst heimili sín og skortir mat, vatn og skjól.

„Þetta eru margar eyjar og það er erfitt að fá réttar tölur,“ segir Margarita. „Það gæti verið mjög slæmt ástand á smærri eyjunum án þess að við höfum heyrt af því. Ég veit um eina konu sem hefur ekkert heyrt frá syni sínum. Og þegar fólk hefur ekki heyrt frá foreldrum sínum og fjölskyldu þá er það mjög erfitt.“

Sjálf á Margarita fjölskyldu á Filippseyjum sem hún hefur fengið staðfest að er heil á húfi.

Hlaðborð þar sem öll hráefni og vinna eru gefin

Á sunnudaginn milli klukkan 13 og 17 verður boðið upp á hlaðborð af filipseyskum mat á veitingastaðnum Bambus í Borgartúni. Miðaverð er 2000 kr sem renna til starfs UNICEF á Filippseyjum og til frjálsra félagasamtaka Filippseyinga til uppbyggingar á hamfarasvæðinu.

Margarita segir að yfir 20 sjálfboðaliðar muni gefa vinnu sína vegna hlaðborðsins. Þá hafa fyrirtæki styrkt málefni, Víðir gefur t.a.m. allt hráefni til matargerðarinnar og Oddi prentar miðana. „Það er mikilvægt fyrir okkur að geta gert þetta svona þannig að söfnunarféð renni óskipt til málefnisins,“ segir Margarita. Þá munu börn af filipseyskum uppruna syngja lög fyrir matargesti.

Þeir sem vilja smakka á mat frá Filippseyjum og styrkja söfnunina um leið eru beðnir um að láta vita af komu sinni fyrirfram með því að senda póst á margaritah@icelandtravel.is eða í síma 862-9240.

Þetta er gert til þess að hægt sé að taka mið af því í undirbúningnum hve von sé á mörgum. Einnig er hægt að styrkja UNICEF beint með því að senda sms-ið barn í númerið 1900.

Verða í Kolaportinu um helgina

Íslensk-filippseyska félagið hefur nú þegar safnað yfir 400.000 krónum til hjálparstarfs á hamfarsvæðunum eftir fellibylinn. Nóra Valdís Mangubat segir að enn sé verið að safna og um helgina stendur til að félagið verði með sölubás í Kolaportinu til styrktar hjálparstarfinu.

„Þetta er mjög stuttur fyrirvari en við viljum gera það sem við getum og erum að safna fötum og öðrum vörum til að selja í Kolaportinu,“ segir Nóra. Básinn verður merktur Íslensk-filippseyska félaginu og allur ágóði af sölunni látinn renna til uppbyggingar á hamfarasvæðinu.

Sjálf segist Nóra stöðugt vakta filippseyska fréttamiðla á netinu sem og Facebook, sem margir nota til að láta vita af sér eða lýsa eftir ástvinum. Fjölskylda Nóru á Filippseyjum er heil á húfi.

„Það er allt í lagi hjá minni fjölskyldu, en þau vantar bara mat. Þau eru mjög svöng vegna þess að það er hvergi hægt að fá mat.“ Nóra ætlaði að fara út um jólin en hún hefur nú ákveðið að flýta förinni og flýgur til Filippseyja strax í byrjun desember til að vera fjölskyldu sinni innan handar.

Filippseyingar á Íslandi halda góðgerðarhlaðborð á sunnudaginn þar sem boðið …
Filippseyingar á Íslandi halda góðgerðarhlaðborð á sunnudaginn þar sem boðið verður upp á mat frá Filippseyjum til styrktar UNICEF.
Filippseyskur drengur virðir fyrir sér eyðilegginguna í Tacloban þa sem …
Filippseyskur drengur virðir fyrir sér eyðilegginguna í Tacloban þa sem fellibylurinn og flóðbylgjur sem fylgdu jöfnuðu hús við jörðu. AFP
Lina Mimbrello er 28 ára gömul og sonur hennar Joseph …
Lina Mimbrello er 28 ára gömul og sonur hennar Joseph 2 ára. Þau misstu heimili sitt og biðu þess að herinn flytti þau burt af hamfarasvæðinu í Tacloban. NOEL CELIS
Eyðileggingin í Tacloban er gríðarleg.
Eyðileggingin í Tacloban er gríðarleg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert