Með 550 tonn af síld til hafnar

Sighvatur Bjarnason VE 81 átti gott kast í Grundarfirði og …
Sighvatur Bjarnason VE 81 átti gott kast í Grundarfirði og heldur nú til hafnar með 550 tonn af síld. mbl.is/Alfons Finnsson

Nóta- og togveiðiskipið Sighvatur Bjarnason VE-81 er nú á leið til heimahafnar í Vestmannaeyjum með um 550 tonn af síld sem veiddist í einu kasti í Grundarfirði í gær. Skipverjar biðu veðrið af sér í vari skammt frá landi áður en haldið var heim á leið.

Síldveiðar voru gefnar frjálsar innan brúar í Kolgrafafirði á föstudaginn var og nýttu margir smábátar sér það enda mokveiddist. Stærri skip hafa hins vegar þurft að láta sér það lynda að vera úti á Grundarfirði en þar veiddist lítið sem ekkert um helgina og töldu menn víst að síldin sem var þar væri öll komin inn í Kolgrafafjörð.

Áður en skall á með hvassviðri í gær náðu skipverjar á Sighvati Bjarnasyni þó að hala inn 550 tonnum í einu kasti og eru sáttir við sinn hlut. „Fórum út kl. 08:00, köstuðum kl. 11:00 og fengum skammtinn, karlinn klikkar ekki á því frekar en fyrri daginn,“ segir á bloggsíðu áhafnarinnar.

Helgi Valdimarsson skipstjóri segir að þetta magn henti mjög vel og verður því ekki haldið áfram. Blönduð vinnsla verður á síldinni sem fer ýmist í frystingu eða salt.

Lokað fyrir veiði á morgun vegna sprenginganna

Á morgun verða sprengdar djúpsprengjur á botni Kolgrafafjarðar, í því skyni að hrekja síldina sem þar er nú út úr firðinum.

Vegna aðgerðanna verður Kolgrafafjörður lokaður á morgun fyrir bátaumferð og veiði og vegurinn innan fjarðar verður sömuleiðis lokaður almennri umferð. Eftir sem áður verður opið fyrir umferð um brúna sjálfa, en ekki verður heimilt að stöðva ökutæki á brúnni.

Varðskipið Þór mun í dag leggja af stað áleiðis til Kolgrafafjarðar vegna aðgerðanna og munu bátar á vegum Landhelgisgæslunnar koma djúpsprengjunum fyrir í firðinum á morgun.

Fylgst verður grannt með árangri aðgerðanna, magni síldar og súrefnisstöðu fjarðarins í því skyni að geta gripið til aðgerða á ný með skömmum fyrirvara þegar og ef þurfa þykir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert