„Skuldaleiksýningin var tilkomumikil“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar Mbl.is/Ómar

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að skuldaleiksýningin hafi verið tilkomumikil, enda full þörf að tjalda öllu til þegar fela á vanefndir á kosningaloforðunum miklu. „Lofað var leiðréttingu verðtryggðra lána upp á 300 milljarða. Raunin er 80 milljarðar,“ skrifar Árni Páll á Facebook-síðu sína.

„Lofað var að leiðréttingin yrði á kostnað erlendra kröfuhafa og ríkinu að kostnaðarlausu. Nú er hún öll á kostnað ríkisins, sem situr uppi með höfuðverkinn af því að afla tekna til að standa undir öllu saman.

Engin lausn á forsendubresti námsmanna. Engin lausn fyrir fólk með lánsveð. Engin lausn fyrir leigjendur sem borgað hafa verðtryggða leigu árum saman - en þeim er allranáðarsamlegast boðið upp á að spara fyrir íbúð.

Stærstur hluti lausnarinnar er svo að við fáum að greiða sjálf niður okkar eigin skuldir.

Bjarni Benediktsson kallaði þetta fugl í skógi í kosningabaráttunni í vor. Ég var sammála honum þá og er það enn, þótt hann sé farinn með Sigmundi í þessa skógarferð,“ skrifar Árni Páll.

mbl.is