Hundleiðinlegu veðri spáð síðdegis

Éljagangur verður í dag, á Þorláksmessu, um mestallt land. Vaxandi hríðarveður með versnandi skyggni á Vestfjörðum og Norðurlandi þegar líður á daginn, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á aðfangadag hvessir af norðaustri. Reikna má með stormi og stórhríð austanlands frá miðjum degi, en éljagangi og skafrenningi frá því um morguninn norðanlands og á Vestfjörðum.

Strætó varar við því að búast megi við því að ferðir norður falli niður síðdegis: „Spáð er mjög slæmu veðri á Norðvesturlandi upp úr hádegi í dag og gæti svo farið að síðdegisferðirnar frá Akureyri/Reykjavík falli niður af þeim sökum.“

Það er éljagangur á höfuðborgarsvæðinu og austur yfir Hellisheiði, og snjóþekja á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi er víðast hvar nokkur hálka, raunar flughált í Grafningnum. Éljagangur er víða á Vesturlandi og snjóþekja, hálka eða hálkublettir á flestum leiðum.

Snjóþekja er á flestum fjallvegum á Vestfjörðum en sumstaðar flughált á láglendi, s.s. milli Gufudals og Brjánslækjar, og á kafla í Ísafjarðardjúpi innan Súðavíkur.

Hálka er á flestum vegum á Norðurlandi vestra en flughált á milli Hofsóss og Fljóta. Á Norðurlandi eystra er víða farið að snjóa en ekki orðið hvasst, og ekki fyrirstaða á vegum. Flughált er á Brekknaheiði.

Snjóþekja er á flestum vegum á Austurlandi en þæfingsfærð á Möðrudalsöræfum. Ekki eru komnar upplýsingar af Vatnsskarði eystra. Það er hálka með ströndinni frá Eskifirði að Djúpavogi en hálkublettir þaðan með suðausturströndinni.

Hreindýrahópar eru nú við veg í Hamarsfirði, Álftafirði og í Reyðarfirði og eru vegfarendur beðnir að gæta varúðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert