Forysta VG vildi ekki þjóðaratkvæði

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hægt hefði verið að fá Samfylkinguna til þess að fallast á þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið á síðasta kjörtímabili ef skynsamlega hefði verið haldið á málum af hálfu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og af staðfestu. Hins vegar var ekki vilji fyrir því hjá forystu VG.

Þetta segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og fyrrverandi innanríkisráðherra, á heimasíðu sinni. Hann svarar þar skrifum Steingríms J. Sigfússonar, fyrrverandi formanns VG, sem fram koma í bók hans varðandi það hvernig haldið var á Evrópumálunum á síðasta kjörtímabili. Undir árslok 2012 hafi Ögmundur talið að málið yrði tekið upp af alvöru af VG í upphafi nýs árs með það fyrir augum að fá lyktir í það sem gætu sameinað flokkinn. Sú hafi hins vegar ekki orðið raunin þó gert hafi verið hlé á umsóknarferlinu.

„Þegar frá leið vildi ég að við freistuðum þess að flýta ESB-ferlinu og efndum til þjóðaratkvæðagreiðslu innan kjörtímabilsins, það er þegar sjá mátti hvernig viðræðurnar þróuðust.  Fæ ég seint skilið hve tregir og íhaldssamir helstu forsvarsmenn VG í þessum málaflokki voru almennt í þessu efni. Þeir sem voru veikir fyrir ESB í okkar röðum fóru smám saman að tala fyrir því að ná „góðum samningi“ og þyrftum við að gefa rúman tíma til þess, en harðir ESB andstæðingar voru á hinn bóginn, margir hverjir, orðnir slíkir nauðhyggjumenn að þeir virtust trúa því að engu væri hægt að hnika í viðræðuferlinu!“ segir hann.

Gáfu kjósendum ranga mynd af stefnunni

Ögmundur segir að hann hafi fyrir þingkosningarnar 2009 sagt við kjósendur að til þess gæti komið að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið færi VG í ríkisstjórn. Enda hefði samþykkt landsfundar flokksins verið opin í þeim efnum þó ekki hefði verið nákvæmlega fjallað um fyrirkomulag mögulegrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar hafi Samfylkingin ekki verið reiðubúin að fallast á tvöfalt þjóðaratkvæði eins og fyrir vikið hafi verið sótt um inngöngu í sambandið án þess að bera það fyrst undir þjóðina.

Hann gagnrýnir ennfremur ýmsa forsvarsmenn VG fyrir að hafa ekki sagt kjósendum fyrir þingkosningarnar að til umsóknar um inngöngu í Evrópusambandið gæti komið. „Það höfðu hins vegar ýmsir aðrir forsvarsmenn flokksins látið undir höfuð leggjast að gera og sumir talað mjög afdráttarlaust þvert á þessa nálgun, jafnvel lofað kjósendum að þeir myndu undir engum kringumstæðum fallast á hana. Slíkar heitstrengingar skýra að hluta til þann hnút sem málið hljóp í.“

Grein Ögmundar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert