Vilja kaupa og byggja íbúðir í óþökk meirihlutans

Frá Kópavogi.
Frá Kópavogi.

Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn Kópavogs ásamt Gunnari Birgissyni samþykktu á fundi bæjarstjórnar í kvöld í óþökk meirihlutans að kaupa 30-40 félagslegar íbúðir í bænum og byggja að auki tvö fjölbýlishús fyrir almennan leigumarkað. Bæjarstjóri segir brjálæði að ákveða á einum fundi að eyða 3 milljörðum króna.

Að samþykktinni standa fulltrúar Samfylkingar. VG og Næstbesta flokksins auk Gunnars Birgissonar. Sitjandi meirihluti Sjálfstæðisflokks, Y-lista og Framsóknar greiddi atkvæði gegn henni.

Pétur Ólafsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir ekki liggja fyrir hvar fjölbýlishúsin tvö muni rísa. „Núna þarf að fara að vinna í málinu, en þetta er skref í átt að því að leysa þann húsnæðisvanda sem hefur myndast í kjölfar hrunsins,“ segir Pétur.

Íbúðirnar 30-40 sem verða leigðar þeim sem þurfa á félagslegum úrræðum að halda verða væntanlega víðs vegar um bæinn. „Það gæti tekið tíma að ganga frá þessu,“ segir Pétur. „Meirihlutinn í bæjarstjórninni greiddi atkvæði á móti þessu, en það er þeirra að framkvæma.“ 

Kópavogur uppfyllir ekki viðmið eftirlitsnefndar sveitarfélaganna

„Að ákveða að eyða ríflega 3 milljörðum króna á einum fundi er brjálæði,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi. „Kópavogur uppfyllir ekki viðmið eftirlitsnefndar sveitarfélaganna. Það þýðir að við þurfum að leita heimilda nefndarinnar eigi tillagan að geta gengið eftir.“

Að sögn Ármanns var tillagan ekki send út fyrirfram, heldur var henni dreift á fundinum. Hann segist hafa farið fram á frestun á málinu og lagt til að leitað yrði umsagna fagnefnda og embættismanna, en ekki hefði verið orðið við því. „Það hefur verið hefð fyrir því hingað til á bæjarstjórnarfundum að ef einhver óskaði eftir frestun á málum, þá hefur verið orðið við því.“

Segir marga í brýnni þörf fyrir félagslegt húsnæði

Að sögn Péturs eru um 200 manns á biðlista eftir félagslegum húsnæðisúrræðum í bænum. Hann segir marga vera í brýnni þörf, sumir búi hjá ættingjum eða í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði. Spurður um hvort ekki sé þörf fyrir fleiri íbúðir en þessar 30-40 segir hann það líklegt. „En við byrjum svona. Að okkar mati eru biðlistarnir svartur blettur á sveitarfélögum á Íslandi og því styttri sem þeir eru, þeim mun betra.“

Kosningaskjálfti kominn í fólk

Ármann segir Kópavogsbæ eiga um 400 félagslegar íbúðir, um 5% allra íbúða í fjölbýli í sveitarfélaginu séu félagslegar og í fyrra hafi verið keyptar helmingi fleiri slíkar íbúðir en árið áður. „Við höfum verið að gefa í. En það er greinilega kominn kosningaskjálfti í fólk og það byrjað að skrifa undir kosningavíxla.“

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. Kristinn Ingvarsson
Pétur Ólafsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Pétur Ólafsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert