Skipulögð atlaga „skötuhjúa“

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. Kristinn Ingvarsson

Tímasetningin á stuðningi Gunnars Birgissonar við tillögu minnihlutans í húsnæðismálum skömmu fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi er engin tilviljun, að sögn Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra. Þar sameinist þau „skötuhjú“ Gunnar og Guðríður Arnardóttir, Samfylkingu, gegn bæjarstjóra.

- Er meirihlutinn að springa?

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðríður Arnardóttir og Gunnar Birgisson ná saman. Meirihlutinn hefur haldið og starfað áfram þrátt fyrir það. Ég sé engan grundvallarmun á því sem er að gerast núna og því sem hefur áður gerst milli þeirra skötuhjúa.“

 Hurðaskellir skötuhjúa

- Hjálmar Hjálmarsson, Næstbesta flokknum, segir að Gunnar sé að reyna að grafa undan þér og styrkja þannig vígstöðu Margrétar Friðriksdóttur í prófkjöri Sjálfstæðismanna. Hefurðu áhyggjur af því að það verði vegið að þinni stöðu?

„Ég verð að segja eins og er að ég lít á þetta sem hurðaskelli þeirra beggja skötuhjúa, Guðríðar og Gunnars, áður en þau yfirgefa hið pólitíska svið fyrir bæjarstjórn. Það er alveg öruggt mál að það tengist þessu prófkjöri. Þessi tímasetning er engin tilviljun.“

- Þetta er þá atlaga gegn þinni stöðu?

„Þetta er alveg klárlega atlaga. Þegar bæjarfulltrúar haga sér með þessum hætti eru þeir að setja persónu sína og eigin hagsmuni ofar hagsmunum bæjarsjóðs og bæjarbúa. Ég get fullyrt það að þegar Gunnar Birgisson var oddviti hafði hann fullan stuðning hjá mér. Kannski studdi ég hann alltof vel á sínum tíma.

Hann notaði þá aðferð að taka ákvarðanir eins og að smella fingri. Ég vil hins vegar gaumgæfa málin betur og það er auðvitað algerlega andstætt þeim vinnubrögðum sem hann hefur viðhaft í gegnum árin.“

Leggur störf sín í dóm kjósenda

- Hversu lengi starfar bæjarstjórn fram að kosningum?

„Við störfum út maí, fram að kosningum laugardaginn 31. maí.“

- Hvernig meturðu þína stöðu. Ætlar þú að stefna ótrauður að oddvitasætinu?

„Já, ég stefni auðvitað ótrauður að oddvitasætinu. Það sem ég er auðvitað að gera í þessu prófkjöri er að leggja störf mín sem bæjarstjóra í dóm kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Það hefur gengið mjög vel í Kópavogi, þrátt fyrir Gunnar Birgisson. Við höfum náð fram öllum okkar stærstu markmiðum, sem snúa að því að lækka skuldir, lækka skatta og í sumum tilfellum lækka gjöld. Þannig að þetta hefur gengið mjög vel.“

Gunnar sýni stuðning sinn í verki 

- Hvað gerist næst innan Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Hvaða eftirmál mun þetta hafa?

„Ég ætla ekkert að fullyrða um það á þessari stöðu. Gunnar Birgisson hefur sjálfur lýst því yfir að hann sé fylgjandi þessum meirihluta. Það væri auðvitað óskandi að hann sýndi það í verki.“

- Gunnar sagði við mbl.is í morgun að Kópavogsbær hefði vel borð fyrir báru að ráðast í fjárfestingar vegna félagslegra leiguíbúða, enda væri í fjárhægsáætlun bæjarins ekki gert ráð fyrir tekjum af lóðasölu. Með því að selja lóðir væru komnar tekjur fyrir þessum framkvæmdum, sem þú telur „brjálæði“ að ráðast í. Hvernig bregstu við því?

„Þarna vill Gunnar, og þá kannski ekki í fyrsta sinn, eyða sömu krónunni tvisvar. Það hefur verið yfirlýst stefna, ekki aðeins meirihlutans heldur allra bæjarfulltrúa, að allar tekjur af lóðasölu fari í að greiða niður skuldir. Það er ekki hægt að nota sömu krónuna í að kaupa íbúðir og greiða niður skuldir,“ segir Ármann.

Hefð fyrir frestun tillagna

Ármann telur vinnubrögð Gunnars í málinu ámælisverð.

„Vinnubrögðin eru auðvitað forkastanleg. Það hefur verið hefð fyrir því hér í Kópavogi að þegar fólk kemur með tillögur inn á nefndafundi hefur þeim verið frestað, ef eftir því hefur verið óskað. Í öðrum bæjarstjórnum er það þannig að yfirleitt þarf tvo þriðju bæjarfulltrúa til að samþykkja að tillaga sé tekin á dagskrá. Við höfum hins vegar viðhaft þessa aðferð, að menn fá að leggja fram tillöguna en menn hafa alltaf orðið við frestun.

Menn vildu það ekki í þessu tilviki, þrátt fyrir að þarna væri um meiriháttar útgjöld að ræða. Þrír milljarðar eru 20% af skatttekjum bæjarins. Það er því algert glapræði að skoða þetta mál ekki betur, fyrir utan að lögin kveða skýrt á um það að það skuli leggja fram viðauka við fjárhagsáætlun þegar svona tillögur koma fram. Það er ekki gert. Því var hafnað að fá álit embættismanna á þessari tillögu. Því var hafnað að fá álit fagnefnda. Af hverju? Hvað lá svona á?

Fyrir jól fórum við fulltrúar allra flokka í það að skoða húsnæðismarkaðinn og hvaða kostir væru í boði. Nú er verið að gera rannsókn á markaðnum og síðan ætlum við að vinna úr rannsókninni og koma fram með tillögur sem meðal annars komu sneru að þessum hugmyndum sem komu fram í þessari tillögu, ásamt fleiru. Hvers vegna mátti ekki klára þá vinnu? Ég bara spyr. Þetta eru vinnubrögð sem ég skrifa ekki upp á og eru algjörlega á skjön við það sem ég myndi kalla góð stjórnsýsla og slæm skilaboð, ekki aðeins út í samfélagið heldur líka til allra starfsmanna hjá Kópavogsbæ,“ segir Ármann Kr. Ólafsson. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert