Björk og Aronofsky í náttúruvernd

Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir ásamt hópi listamanna krefst þess að náttúruverndarlög, sem samþykkt voru í fyrra og áttu að taka gildi í apríl, standi. Þetta sagði hún á kynningarfundi vegna náttúruverndartónleika sem verða í Hörpu hinn 18. mars en þar koma m.a. Lykke Li og Patti Smith fram.

Þennan sama dag verður sérstök frumsýning á Noah, nýjustu mynd Darrens Aronofskys, sem var að miklu leyti mynduð hér á landi, í Sambíóunum í Egilshöll. Leikstjórinn var einnig viðstaddur fundinn í dag og þar kom fram að litatónarnir sem notaðir eru í myndinni eru allir byggðir á litum íslenskrar náttúru, sem hann segir hafa haft djúpstæð áhrif á sig. 

Frumsýningin í Sambíóunum Egilshöll verður kl. 17:30 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 20:30 en húsið verður opnað 30 mínútum fyrr. Takmarkað magn miða er í boði á bæði kvikmyndasýninguna og tónleikana. Allir listamenn gefa vinnu sína og allur ágóði rennur til Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landverndar.

Þeir tónlistamenn sem fram koma eru: Highlands, Patti Smith, Of Monsters and Men, Samaris, Retro Stefson, Björk, Mammút og Lykke Li.

Manifesto fyrir náttúruvernd - Stopp Gætum garðsins

Tónleikarnir nefnast Stopp gætum garðsins og eftirfarandi yfirlýsing var lesin upp á fundinum í dag:

Um heim allan hefur náttúru og umhverfi verið fórnað á altari þróunar sem aldrei getur talist sjálfbær. Regnskógum er eytt, vatnsföll stífluð, landi eytt, vatn og höf menguð, loftslagi jarðar breytt og höfin súrna ört. Á Íslandi hefur Kárahnjúkavirkjun orðið táknmynd þeirrar eyðileggingar sem ógnar tilvist mannsins á jörðinni. Það er skylda okkar að vernda íslenska náttúru og skila henni heilli til framtíðarkynslóða.

Hálendi Íslands, stærsta víðerni í Evrópu þar sem ósnortin og lítt snortin náttúra fá enn notið sín, er ekki bara athvarf og fjársjóður okkar sem erfðum og munum erfa þetta land heldur heimsins alls. Hvergi annars staðar er að finna Mývatn, Þjórsárver, Sprengisand, Skaftafell og Langasjó.

Við krefjumst þess að Þjórsárver, víðernin vestan Þjórsár og fossarnir í Þjórsá verði verndaðir til allrar framtíðar. Við mótmælum harðlega áformum umhverfis- og auðlindaráðherra um breytt friðlandsmörk í Þjórsárverum til að skapa rými fyrir Norðlingaölduveitu eða annað miðlunarlón við Þjórsárver. Sú lagatúlkun ráðherra að allir virkjunarkostir eða náttúrusvæði séu undir í hverjum nýjum áfanga rammaáætlunar er aðför að náttúru landsins og stenst vart lög.

Við höfum einstakt tækifæri núna til að gera hálendið allt að einum þjóðgarði með lögum frá Alþingi. Þar með verði hálendi Íslands sett undir eina skipulagsstjórn og skýrt afmarkað. Þar með heyri öll áform um lagningu raflína, vegagerð eða önnur mannvirki sem kljúfa eða sundra dýrmætum landslagsheildum hálendisins sögunni til.

Við vörum eindregið við hvers kyns áformum um virkjun jarðvarma við Mývatn. Bygging Bjarnarflagsvirkjunar er ekki áhættunnar virði. Hvergi í heiminum er annað Mývatn til. Ábyrgð okkar er því mikil.

Við krefjumst þess að einstök náttúra Reykjaness verði vernduð með stofnun eldfjallaþjóðgarðs og að allar nýjar raflínur verði lagðar í jörð.

Við teljum afar brýnt að ríkisvaldið tryggi landvörslu og verji dýrmæt náttúrusvæði gegn sívaxandi ágangi ferðamanna.

Við mótmælum sérstaklega aðför yfirvalda að náttúruverndarfólki, þar sem fordæmalaus yfirgangur lögreglu og ákærur gagnvart þeim sem vilja vernda Gálgahraun var grimmur og óþarfur. Við minnum á að réttur almennings til að mótmæla náttúruspjöllum hvarvetna um heim allan er heilagur og grunnforsenda þess að mannkyni takist að forða tortímingu mannlífs á jörðinni.

mbl.is