Fékk mikla bjartsýni í vöggugjöf

Daði Guðbjörnsson myndlistarmaður.
Daði Guðbjörnsson myndlistarmaður. mbl.is/Kristinn

Daði Guðbjörnsson myndlistarmaður fagnar sextugsafmæli eftir helgi, 12. maí og hefur þegar verið minntur hressilega á aldurinn. „Þetta byrjaði ekki vel, ég fékk í pósti blað frá Félagi eldri borgara um það hvernig eigi að lifa lífinu. Mér brá svolítið við það,“ segir hann. „Annars hef ég ekki verið jafn hress árum saman, það er heilbrigðari lífsstíl að þakka, sérstaklega jóga. Það eru um átta ár frá því ég byrjaði að stunda Sahaja jóga en þar er leitast við að tengja andann við alheimsvitundina. Þannig getur maður breytt sjálfum sér til hins betra, notið þess að vera núinu og vera hamingjusamur. Þannig að Sahaja jóga hefur breytt lífi mínu til hins betra.“

Erfið fötlun

Af hverju fannst þér ástæða til að breyta þér?

„Mér fannst ég orðinn dálítið útbrunninn, ég hef reyndar alltaf hreyft mig en var farinn að borða óhollan mat og drakk aðeins of mikið og fann að sá lífsstíll var ekki að gera mér gott. Ég hef alltaf haft áhuga á andlegum efnum og fór að stunda jóga í framhaldi af því að ég kynnist konu sem hét Nora Kornblueh. Hún var sellóleikari og dyslexíukennari og var að leita að þekktu fólki sem vildi leggja nafn sitt við að vera lesblint. Mér fannst það allt í lagi vegna þess að þetta er erfið fötlun. Það eru notaðar slökunaraðferðir í Davis lesblindumeðferð sem ég heillaðist af og í framhaldinu kynntist ég Sahaja jóga sem ég stunda reglulega.“

Víkjum aðeins að lesblindunni, reyndist skólagangan þér erfið vegna lesblindunar?

„Þegar ég var barn fengu lesblindir enga aðstoð í skólakerfinu og voru afgreiddir með því að þeir væru heimskir. Það var því ekki annað í boði fyrir mig en að vera í tossabekk. Í sjálfu sér var skólagangan mér ekki erfið og ég skemmti mér ágætlega. Ég var í ákveðinni stöðu og reyndi að finna sem besta leið fyrir sjálfan mig. Þar sem ég gat það ekki í gegnum bóknám þá gerði ég það á annan hátt. Í gagnfræðaskóla gekk ég í málfundafélagið og leiklistarfélagið og tók þátt í að gefa út skólablað. Ég var í félagsskap skemmtilegs fólks. Ég held að ég hafi fengið mikla bjartsýni í vöggugjöf og það hjálpaði mér. Ég sat í tímum og þegar ég var ekki að tala og trufla kennsluna hlustaði ég á kennarann og þar sem ég hafði heyrnarminni tókst mér að læra. Það sem háði mér mest var að ég gat ekki komið frá mér því sem ég vissi því ég skrifaði allt vitlaust. Svörin voru röng af því þau voru vitlaust skrifuð. Einhvern veginn tókst mér samt að ná lokaprófum í gagnfræðaskóla.“

Tíminn vann með mér

Hvernig stóð á því að þú ákvaðst að læra myndlist?

„Eftir gagnfræðaskóla var planið að læra myndlist en karl faðir minn var vel stæður togaraskipstjóri og vildi engan aumingjaskap í sinni fjölskyldu. Hann píndi mig til að læra húsgagnasmíði og eftir á reyndist það hafa verið góð hugmynd. Ég lærði húsgagnasmíði hjá Helga Einarssyni sem var þekktur fyrir fallega hönnun, og rak menningarlegt húsgagnaverkstæði þar sem ég undi mér ágætlega með skemmtilegum vinnufélögum. Á kvöldin var ég á námskeiðum í Mynd- og handíðaskólanum og lærði teikningu hjá Hringi Jóhannessyni. Ég ákvað svo að taka inntökupróf í skólann og náði því. Ef ég hefði fallið í fyrstu atrennu sem unglingur, þá er ekki víst að ég hefði lagt fyrir mig myndlist.

Ég var örlítið eldri en aðrir nemendur þegar ég kom á svæðið með mína lesblindu sem er samkvæmt því sem mér skilst núna mikil guðsgjöf fyrir listamenn því þrívíddarhugsun hentar mjög vel fyrir myndlistarnám. Flestir nemendanna voru að fara í sitt fyrsta fagnám og stefndu síðan á kennaradeild eða auglýsingadeild og ætluðu að leggja fyrir sig eitthvað praktískt. Mér, með bakgrunninn í húsgagnasmíðinni, fannst ég hins vegar vera búinn að gera nógu margt praktískt í þessu jarðlífi og jafnvel þeim næstu og ákvað að gera það sem mér sýndist. Málaradeildin á þeim tíma fannst mér ekki vera spennandi svo ég fór í nýlistadeildina. Tískusveiflur eru mjög hraðar á Íslandi og þegar kom að nýlistinni skynjaði ég að þar var ein lína í gangi; listamenn voru að gera ljósmyndir í stíl Sigurðar Guðmundssonar. Það hentaði mér ekki þannig að ég flosnaði upp úr nýlistinni og þegar ég útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskólanum var ég farinn að mála á fullu. Ég hafði á tilfinninguna að komið væri að endurkomu málverksins, þótt sú hugmynd mín þætti fremur heimskuleg í íslenskum listaheimi þessa tíma.

Ég fór til Hollands í framhaldsnám í myndlist til að bæta við mig. Mér fannst að það hlyti að vera þroskandi að fara út, kynnast nýjum straumum og viðhorfum og horfa á myndlistina hér utan frá. Mér gekk vel því um svipað leyti og ég hóf námið í Hollandi hélt ég myndlistarsýningu í Amsterdam sem hlaut nokkra fjölmiðlaathygli og í skólanum vissi fólk hver ég var. Þegar Sigurður Guðmundsson kom svo í heimsókn til mín í skólann og gaf mér í nefið um leið og hann leitaði eftir aðstoð í ákveðnu máli þá voru hinir hollensku samnemendur mínir vissir um að ég væri mjög óvenjulegt séní því Siggi var goð í hollenska listalífinu á þessum tíma. Þegar ég sneri heim fóru verkin mín að seljast. Þannig að ég var heppinn, en ferillinn var líka að ýmsu leyti heppilegur. Fyrst kom praktísk húsgagnasmíði, síðan nýlistin og svo málverkið, en ég byrjaði að mála á hárréttum tíma og varð að nokkru leyti brautryðjandi í málverkinu því svo fáir voru að sinna því. Þegar fimmta hefti Íslensku listasögunnar, sem rifist er um, er opnað þá er ég fyrsti listamaðurinn sem fjallað er um þar. Það er vegna þess að tíminn vann með mér.“

Búið að eyðileggja sölumarkaðinn

Það er alltaf öðru hverju mikið rætt um listamannalaun. Hefur þú notið góðs af þeim?

„Ég fór snemma að selja vel og þá sótti ég ekki um starfslaun. Svo komu tímabil þar sem ég vildi gjarnan fá starfslaun en fékk ekki starfslaun þannig að ég varð að treysta á söluna. Ég er ekki í áskrifendaflokki starfslauna. Ef listamaður liggur undir grun um að hafa selt mikið þá fær hann ekki starfslaun því þeim virðist vera úthlutað eftir félagslegum línum. Ég er ekki á móti starfslaunum því þau eiga rétt á sér og reyndar stöðugt meiri rétt á sér, eftir því sem misskiptingin í þjóðfélaginu verður meiri þá þurfa listamenn mjög á þeim að halda.“

Hvernig hefur þér gengið að lifa á list þinni?

„Það gekk mjög vel fram að hruni. Núna er eiginlega búið að eyðileggja sölumarkaðinn í myndlistinni því fólkið sem áður keypti myndir á engan pening lengur. Það er mjög alvarlegt að á Vesturlöndum, þar á meðal hér á landi, sé búið að rústa millistéttinni. Peningarnir fara á mjög fáar hendur sem hefur mjög slæm þjóðfélagsleg áhrif. Ég var á Indlandi síðastliðinn vetur og þar er lágstéttin mjög fjölmenn en millistéttin er þó vaxandi meðan við á Vesturlöndum stefnum í hina áttina. Ég vil að millistéttin sé sterk og fjölmenn og tel það farsælast fyrir alla.“

Fyrrverandi sjálfstæðismaður

Ég veit að þú varst sjálfstæðismaður, ertu það ennþá?

„Ég kem úr allaballafjölskyldu, en varð svo hálfgerður krati og eftir hinn margfræga framsóknaráratug, sem sagður er hafa verið hræðilegur, varð ég sjálfstæðismaður og gekk í Sjálfstæðisflokkinn upp úr 1980. Ég var ánægður þar og milli 1990 og 2000 þá var ekki annað hægt að segja en land og þjóð væri í góðum málum. Ég man að ég málaði mynd árið 2000 sem hét Gullkálfurinn en þá var ég farinn að finna að peningahyggjan væri að ná æ sterkari tökum á þjóðinni. Við jógarnir tölum mikið um jafnvægið sem þarf að vera á milli andlega lífsins og hins efnislega og til að geta stundað andlegt líf þurfum við að hafa afkomu. Óhófleg gróðahyggja raskar þessu jafnvægi eins og fátæktin gerir sömuleiðis. Undir lok góðæristímans var eitthvað um varnaðarorð og ég var svo heppinn að lesa rétt í stöðuna og seldi hlutabréf sem ég átti. Ég gerði hins vegar ekki ráð fyrir að hrunið yrði nánast algjört.

Eftir að í ljós kom að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að gera upp við fortíðina heldur láta eins og ekkert hefði gerst þá sagði ég mig úr flokknum. Mér fannst flokkurinn vera úr tengslum við raunveruleikann og fólkið í landinu þannig að ekki væri hægt að kjósa hann. Síðan hef ég kosið ný framboð. Ég er að bíða eftir því að gerðar verði breytingar á stjórnarskránni og er hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum í málum þar sem það hentar, eins og til dæmis um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Mér finnst líka rétt að taka upp nýja mynt því ef krónan var ónýt í góðærinu þá get ég ekki séð að þjóð, sem er illa stödd eins og við erum, sé betur sett með hana núna.“

Hinn andlegi heimur í myndum

Í tilefni sextugsafmælisins heldur Daði málverkasýningu í Gallerí Fold. „Verkin sem ég sýni í Gallerí Fold eru verk sem hafa orðið til á nokkrum árum. Ég kalla sýninguna Landslag, sjólag og sólir og þarna eru myndir af fjöllum, sjó og sól,“ segir hann. „Íslenskir listmálarar hafa málað fjöll í miklu mæli og ég geri það líka. Þeir hafa hins vegar lítið sinnt því að mála sjóinn, nema Scheving sem gerði það fallega og svo Kjarval sem sinnti því nokkuð. Svo er sólin bæði stór og áberandi í myndum mínum enda heldur hún öllu gangandi og er stórkostlegt afl. Þessar myndir eru í anda þess sem ég hef leitast við að gera hin seinni ár sem er að gera myndir sem endurspegla hinn andlega heim. “

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert