Umræðan um Framsókn nýr lágpunktur

„Hverjir eru afturhaldssamir, Þeir sem vilja styðja við heilnæma og góða matvöru og byggja upp matvælaiðnaðinn hér á landi eða þeir sem vilja láta slíkt lönd og leið og telja það einangrunarhyggju að mega ekki flytja inn eins mikið sterakjöt og menn vilja?“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag. 

Sigmundur fór í ræðu sinni yfir verk Framsóknarflokksins í ríkisstjórn til þessa, en ár er nú liðið frá því að miðstjórn flokksins samþykkti stjórnarsáttmálann og flokkurinn tók sæti í ríkisstjórn. Benti Sigmundur á að eftir gott gengi í sveitarstjórnarkosningunum væri flokkurinn nú með 6 fulltrúa í Reykjavík í fyrsta skiptið í sögunni, fjóra þingmenn og tvo borgarfulltrúa. 

Forsætisráðherra sagði að árangur ríkisstjórnarinnar sé meiri en hann hafi þorað að vona við upphaf samstarfsins, og hafi hann þó verið bjartsýnn. Nú sé kominn tími til að flokkurinn fari að tala í samræmi við árangur ríkisstjórnarinnar. 

„Hagvöxtur tók mikinn kipp á þessu ári, verðbólga er undir verðbólguviðmiðum Seðlabankans og hefur haldist þannig. Atvinnuleysi er í kringum 4% sem er lægra en hjá sambærilegum þjóðum í kringum okkur, þar sem atvinnuleysi er 12% á evrusvæðinu,“ sagði Sigmundur og benti einnig á fjölgun ferðamanna um 34% á tímabilinu. 

Þá fjallaði Sigmundur um verkefnin sem framundan eru. Nefndi hann þar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks, að tillögur hagræðingarnefndarinnar kæmu til skoðunar, að markmiðið sé að eyða 3% af landsframleiðslu til nýsköpunar. Til standi að fara í róttækustu aðgerðirnar í áratugi í húsnæðismálum sem kæmu til með að bæta stöðu leigjenda. 

Skuldastaðan verði best í Evrópu

„Það er mikið til vinnandi að lækka þessar skuldir svo við verðum áfram að sýna aðhald í rekstri ríkisins. En við getum líka minnkað þessar byrðar með því að sýna að við séum að ná árangri í ríkisfjármálum. Þannig getum við lækkað vaxtabyrgði ríkisins eins og gert var fyrr í þessari viku og í raun erfitt að finna betri staðfestingu á þeim árangri sem hefur náðst, þegar íslenska ríkið endurfjármagnaði erlendar skuldir upp á um 116 m.a. kr. og lækkuðu vextina um heilt prósentustig,“ sagði Sigmundur og bætti við: „Við stefnum að því að fyrir lok ársins 2020 verði skuldastaða Íslands orðin ein sú besta í Evrópu og það er raunhæft markmið.“

Hverjir eru afturhaldssamir?

Sigmundur sagði marga hafa getað sparað sér æsinginn sem varð þegar bandaríska verslunarkeðjan COSTCO lýsti yfir áhuga sínum á að koma til landsins. „Menn hefðu getað sparað sér stærsta hluta æsingsins ef menn hefðu gert sér grein fyrir því að reglur ESB og EES leyfa ekki innflutning á þessu bandaríska kjöti. Hvað svo sem við hefðum viljað gera, þá hefði það ekki verið heimilt samkvæmt EES-samningnum. Það var skondið við þetta að það voru áköfustu ESB-mennirnir sem töldu það vera einangrunarhyggju að ætla að koma í veg fyrir að bandarískt kjöt kæmi hingað inn.“ 

99% af þessu kjöti sem framleitt er í verksmiðjubúum í Bandaríkjunum er sterakjöt. Sprautað með ýmis konar hormónum til þess að láta skepnurnar vaxa hraðar. Svo eru þær líka fóðraðar á korni. Það veldur því að ýmis bakteríumyndun er meiri í þessum skepnum en í öðrum. Það er brugðist við því á ýmsan hátt, til dæmis með því að þvo kjötið upp úr ammoníaki.“

„Svo er sýklalyfjum dælt í skepnurnar, sem fer svo út í fæðukeðjuna og er mikið áhyggjuefni þegar kemur að ofnotkun á sýklalyfjum og fleira. Maður spyr sig: Hverjir eru gamaldags og afturhaldssamir? Þeir sem vilja styðja við heilnæma og góða matvöru og byggja upp matvælaiðnaðinn hér á landi og til útflutnings, eða þeir sem vilja láta slíkt lönd og leið og telja það einangrunarhyggju að mega ekki flytja inn eins mikið sterakjöt og menn vilja?“

„Það er þeim til ævarandi skammar“

Sigmundur gerði einnig að umfjöllunarefni sínu umræðuna sem spannst í kringum framboð flokksins í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum. Segir hann umræðuna hafa sprottið úr frá því, hversu illa núverandi stjórnarandstöðuflokkar á Alþingi hafi tekið kosningaósigrinum í síðustu Alþingiskosningum. 

Umræðan er farin að snúast um ímyndarsköpun. Að endurtaka vitleysuna nógu oft svo einhverjir fari að trúa því. Stjórnarandstöðuflokkarnir litu svo á að niðurstöður kosninganna væru rangar niðurstöður. Málflutningurinn mótaðist svolítið af því. Slík umræða hófst í rauninni í kringum Icesave málið árið 2009. Þá fór fólk að henda því fram að Framsóknarflokkurinn væri popúlískur flokkur og setti það í samhengi við þróunina í Evrópu. Ástæðan var sú að flokkurinn vildi ekki að almenningur borgaði fyrir skuldir föllnu fjármálafyrirtækjanna.“

„Nú sjáum við að ísland væri á hausnum ef það hefði verið gert. En það var talið popúlískt! Það var popúlískt að halda því fram að hægt væri að færa niður skuldir heimilanna enn meira.“

„Ég hefði ekki trúað því að óreyndu, að menn myndu leggjast jafnlangt og menn gerðu í kringum sveitarstjórnarkosningarnar, þegar menn reyndu að færa þessa umræðu um popúlisma enn lengra og saka framsóknarmenn um kynþáttahyggju. Flokk sem í næstum því heila öld hefur verið í fararbroddi þegar kemur að mannréttindum.“

„Að menn skuli nýta slíkt mál í pólitískum tilgangi, til að ná höggi á andstæðinganna, er nýr lágpunktur í stjórnmálaumræðu seinni tíma. Það er ekki bara alvarlegt að saka saklaust fólk um þennan hlut, það er líka alvarlegt að nota svo alvarlegt mál í pólitískum tilgangi.“

„Svo var höfuðið bitið af skömminni með því að fara fram á það að Framsóknarmenn biðjist afsökunar á því sem logið var uppá þá. Það er þeim til ævarandi skammar, sem tóku þátt í þessari framgöngu gegn flokknum,“ sagði Sigmundur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert