Dómsmálin færð undir sérstakt ráðuneyti?

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir skynsamlegt að færa dómsmálahluta innanríkisráðuneytisins undir sérstakt ráðuneyti. Með þeim hætti megi tryggja að málaflokkurinn fái þá athygli og svigrúm sem hann þurfi.

Þetta kom fram í sexfréttum Ríkisútvarpsins.

Eins og kunnugt er baðst Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra lausnar frá málefnum dóms og ákæruvalds á föstudaginn var, eftir að aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, hafði verið leystur frá störfum.

Ríkissaksóknari hyggst gefa út ákæru á hendur Gísla Frey, en hann er grunaður um að hafa lekið trúnaðargögnum til fjölmiðla.

Enn er óvíst hver muni taka við dómsmálahluta ráðuneytisins. Heimildir mbl.is herma að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi fundað um málið um helgina og reynt að komast að lausn.

Í samtali við Rúv sagði Bjarni það koma til greina að gera frekari breytingar á stjórnarráðinu samhliða þessari ráðstöfun.

mbl.is