Kvikuhreyfing undir Bárðarbungu

Hér gefur að líta ljósmynd sem fjölmiðlamaðurinn Ómar Ragnarsson tók …
Hér gefur að líta ljósmynd sem fjölmiðlamaðurinn Ómar Ragnarsson tók af hluta Bárðarbungu 3. ágúst sl. mynd/Ómar Ragnarsson

Veðurstofa Íslands telur líkur á að gos verði í Bárðarbungu og hefur viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld verið hækkað úr gulu í appelsínugult vegna þessa. Þetta kom fram í hádegisfréttum Rúv, en vísindamenn sitja enn á fundi með almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra.

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við Rúv að það sé mat vísindamanna að kvika sé á leið upp undir skorpuna á tveimur stöðum. Eldstöðin sýni stöðuga virkni og líkur séu á gosi.

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa bent á að ef núverandi virkni í Bárðarbungu endar í gosi gæti það haft í för með sér jökuhlaup sem líklegast kæmi niður í Jökulsá á Fjöllum.

Uppfært kl. 12:49: Veðurstofan hefur nú sent frá sér tilkynningu þar sem segir að GPS-staðsetningarmælingar gefi sterkar vísbendingar um kvikuhreyfingu í Bárðarbungu. Um sé að ræða jarðskjálftahreyfingar tengdar kvikuhreyfingu austur af Bárðarbunguöskjunni og við brún Dyngjujökuls, skammt austur af Kistufelli.

Gæti leitt til sprengigoss

Klukkan 02:37 aðfararnótt 18. ágúst varð jarðskjálfti, um 4 að stærð, við Kistufell. Það er sterkasti skjálftinn sem mælst hefur á svæðinu frá árinu 1996. Í ljósi endurmats jarðvísindamanna á atburðum síðustu daga hefur Veðurstofan áveðið að hækka viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld og er því Bárðarbunga merkt með appelsínugulu samkvæmt litakóða.

Engin merki eru þó um gos að sögn Veðurstofunnar. Ekki er hægt að útiloka að þessi virkni geti leitt til sprengigoss sem þá mundi valda jökulhlaupi og losun ösku út í andrúmsloftið. Náið er fylgst með þróuninni.

Hér gefur að líta þær miklu jarðhræringar sem eiga sér …
Hér gefur að líta þær miklu jarðhræringar sem eiga sér nú stað í og við Bárðarbungu. mynd/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka