Staðan í norðanverðum Vatnajökli er óbreytt. Skjálftavirknin er enn mjög mikil og hún heldur áfram að færast til norðausturs. Hættustig sem var gefið út í gærkvöldi er enn í gildi og mun flugvél Landhelgisgæslunnar fljúga yfir jökulinn í dag, m.a. til að kanna hvort ferðamenn séu enn á svæðinu.
„Staðan er í sjálfu sér má segja óbreytt. Það er mjög mikil virkni og núna í kringum hádegið var mjög öflug hrina í hrinunni, ef við getum orðað það þannig. Svona með þeim öflugri sem hafa sést í mælitækjunum,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is. Hann segir að þetta þýði einfaldlega að ferlið haldi áfram, en hrinan færist enn til norðausturs. Ekki sjást merki um að kvika sé á leið til yfirborðs.
Aðspurður segir hann skjálftana mælast á 7-10 km dýpi. „Þetta er ennþá ferli sem við fylgjumst mjög náið með,“ segir Víðir, en almannavarnir funduðu með vísindamönnum Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir hádegi.
Hvað varðar hættustig segir Víðir að því sé haldið óbreyttu sem var sett í gærkvöldi, en almannavarnadeild lýsti þá yfir hættustigi norðan Dyngjujökuls að þjóðvegi. Þá er enn í gildi appelsínugult viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld sem var hækkað úr gulu á mánudag.
Spurður út í rýmingu á hálendinu segir Víðir að miðað við þær upplýsingar sem hann hafi þá hafi það gengið vel. „Það er mannað á mörgum þessum lokunastöðunar. Það er fólk þar, bæði björgunarsveitir og lögregla. Síðan fáum við betri yfirsýn þegar flugvél Gæslunnar er búin að fljúga yfir,“ segir Víðir, en flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, fer í loftið klukkan 13 með björgunarsveitarmönnum og vísindamönnum um borð.
Björgunarsveitarmennirnir munu skoða það sérstaklega hvort ferðamenn séu enn á svæðinu við norðanverðan Vatnajökul. „Það er grunur um að það séu gangandi ferðamenn á svæðinu sem hafa ekki vitað af lokuninni. Við ætlum að skoða það sérstaklega,“ segir Víðir.
Hann bendir á að ferðamenn hafi skráð ferðaáætlanir sínar sem reiknuðu með því að vera á þessu svæði á þessum tíma í tengslum við verkefni Landsbjargar SafeTravel. „Það voru ekki mjög nákvæmar upplýsingar sem þýðir það að við viljum bara skoða þetta. En það getur vel verið að þeir séu komnir af svæðinu eða komnir í gegnum það,“ segir Víðir.
Slysavarnafélagið Landsbjörg segir að það hafi gengið vel að rýma svæðið norðan Dyngjujökuls í gærkvöldi. Í dag verði kannað hvort þar séu einhverjar eftirlegukindur.
Á vef Vegagerðarinnar má sjá uppfært kort af þeim vegum, og því svæði, sem lokað hefur verið norðan Dyngjujökuls vegna jarðhræringa í Bárðarbungu. Almannavarnir minna á að öll umferð á svæðinu er nú bönnuð hvort sem farið er akandi, hjólandi eða gangandi.