Ekki sjáanlegt gos undir Dyngjujökli

Gos í Holuhrauni - þessi mynd er tekin fyrir tveimur …
Gos í Holuhrauni - þessi mynd er tekin fyrir tveimur dögum og sýnir virknina í eldri sprungunni. Árni Sæberg

Nýja gossprungan sem myndaðist snemma í morgun er töluvert nær Dyngjujökli en sú fyrri. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur á jarðvísindasviði Háskóla Íslands, segir að þrátt fyrir það séu engin sjáanleg ummerki um að virknin sé komin undir jökulinn. Lokað hefur verið fyrir alla umferð inn á svæðið norðan Vatnajökuls. Þorvaldur er staddur í skálanum í Dreka og fylgist með gosinu úr návígi.

Ný gossprunga myndaðist snemma í morgun í Holuhrauni. Þorvaldur segir að þessi rein sé töluvert sunnar en sú gossprunga sem hefur verið virk í Holuhrauni undanfarna daga og mun nær jöklinum. Nýja sprungan er við jökulgarðinn sem myndaðist á litlu ísöld, eða um sjö hundruð metra norður eftir.

Vísindamenn fóru mjög snöggt yfir svæðið í morgun þegar fréttist af því að mögulega væri farið að gjósa á nýjum stað,  til að sannreyna að um nýja sprungu væri að ræða.

Óvíst hver þróunin verður

Að sögn Þorvaldar er samfelld virkni eftir nýju sprungunni en kvikustrókarnir litlir. Hann segir að það geti skýrst af því að gosið er að byrja og ekki sé vitað hvernig það muni þróast. „Það eru mun minni kvikustrókar úr þessari sprungu en úr þeirri sem hefur verið að gjósa undanfarið,“ segir Þorvaldur og bætir við að virknin í þeirri gossprungu sé ekkert að breytast og  hraunsvæðið stækkar ört.

„Það er bullandi virkni í hrauninu og það lengist til norðvestur og líka til vesturs þannig að það er góð virkni í því ennþá,“ segir Þorvaldur. 

Ef gos er hafið undir jökli þá getur það þýtt jökulhlaup í Jökulsá á Fjöllum með tilheyrandi rýmingu. Enn er hins vegar of snemmt að segja til um það en væntanlega skýrist það eftir flug vísindamanna yfir svæðið. Flugvél á vegum almannavarna er farin af stað frá Reykjavíkurflugvelli með jarðvísindamenn og fulltrúa almannavarna.

mbl.is